Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Siðareglur

Siðareglur leiðsögumanna

        1. gr.
Leiðsögumaður gætir þess að lög og reglur um hreindýraveiðar séu í heiðri hafðar.
Fari viðskiptavinur eða umboðsaðili hans fram á athæfi sem ekki samrýmist lögum
eða reglugerðum ber honum að hafna því og tilkynna það jafnframt til starfsmanns 
Umhverfisstofnunar.
 

        2. gr.
Leiðsögumaður skal yfirfara tilskilin leyfi viðskiptavinar til hreindýraveiða.
Verði samkomulag um að leiðsögumaður afsali sér viðskiptavini til annars
leiðsögumanns skal það tilkynnt eins fljótt og auðið er til starfsmanns Umhverfisstofnunar.


        3. gr.
Leiðsögumaður gætir þess að meðferð skotvopna sé örugg og lögleg.
Hann sér til þess, að vopn séu ekki flutt hlaðin.
Að ekki sé hlaðið fyrr en í skotfæri er komið.
Að vopn og vímuefni eiga enga samleið.
Að ekki sé skotið á dýr nema með hreint og öruggt baksvið. 

        4. gr.
Leiðsögumaður beitir ekki veiðiaðferðum sem valdið geta bráðinni óþarfa
kvölum.
Hann leyfir ekki að hreindýr sé skotið nema hann telji yfirgnæfandi líkur á
því að það falli við fyrsta skot. Særist dýr gerir hann allt sem í hans
valdi stendur til að fella það fljótt og örugglega. 

        5. gr.
Leiðsögumaður sýnir öðrum leiðsögumönnum og viðskiptavinum þeirra háttvísi.
Hann er fús að veita upplýsingar um veiðarnar sem geta orðið öðrum að gagni.
Hann hefur samráð við þá um nýtingu veiðisvæðisins.
Séu fleiri en einn hópur veiðimanna um sömu hjörð hafa þeir forgang sem
fyrstir komu að. Sé vafamál um hver hafi forgang í hjörð komast leiðsögumenn
að samkomulagi um tilhögun veiðanna. 

        6. gr.
Leiðsögumaður skal tilkynna sig til starfsmanns UST á og af veiðum ásamt
árangri veiðanna. Einnig ber honum að tilkynna um óhöpp svo sem slysaskot
eða annað það sem úrskeiðis kann að fara í veiðiferð. 

        7. gr.
Leiðsögumanni ber að gæta þess að meðferð og nýting bráðar sé eins góð og
kostur er hverju sinni. Hann gætir þess að bráð sé flutt þannig að öðrum sé
ekki til ama. 

        8. gr.
Leiðsögumaður gætir þess að farið sé að lögum og reglum um akstur í 
óbyggðum. 
Hann gætir þess að ekki séu skildar eftir umbúðir og annað rusl í 
náttúrunni.


        9. gr.
Leiðsögumanni ber að halda sér í góðri líkamlegri þjálfun. Hann æfa skotfimi
og kynna sér vel riffilskot ásamt eiginleikum mismunandi kúlna.
Hann leiðbeinir viðskiptavini sínum um val á heppilegum löglegum skotfærum
við hreindýraveiðar. 

        10. gr.
Leiðsögumaður sér til þess að veiðikort séu rétt og skilmerkilega útfyllt að
lokinni veiðiferð, og að þar séu gefnar þær upplýsingar sem beðið er um.