Frétt

Skilavefur Umhverfisstofnunar fyrir veiðiskýrsluskil, veiðikortaumsóknir og umsóknir fyrir hreindýraveiðileyfi hefur verið opnaður. Þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á vefnum auk þess sem veiðimenn fá nú rafræn veiðikort og geta því afþakkað plastkortið.
Aðgangsorð eru ekki lengur send til veiðimanna heldur fara notendur inn á vefinn í gegnum hnappinn „Þjónustugáttin-Mínar Síður“ á vef Umhverfisstofnunar og skrá sig inn á sitt svæði, annað hvort með rafrænu skilríki eða íslykli. Þeir sem ekki hafa rafrænt skilríki eða íslykil geta pantað íslykil á island.is og fengið hann sendan í heimabanka (tekur 5-10 mínútur) eða með bréfpósti á lögheimili. Það er hlekkur inn á þessa umsókn í Þjónustugáttinni-Mínar Síður. Rafræn skilríki er hægt að fá í síma en upplýsingar um þau má finna á www.skilriki.is. Rafræn skilríki í síma má m.a. einnig nota til að fara inn á heimabanka og á vef ríkisskattstjóra.

Rafræn veiðikort

Á síðastliðnu ári voru veiðimenn meðal annars spurðir hvort þeir vildu fá veiðikortið rafrænt eða í plasti. Um miðjan október þegar 3551 höfðu svarað spurningunni vildu 33% fá veiðikortið rafrænt. Allir veiðimenn með netfang fá sent rafrænt veiðikort í tölvupósti þegar þeir hafa greitt fyrir kortið. Boðið er upp á að afþakka plastkortið og vera þá eingöngu með rafræna veiðikortið sem hægt er að vera með í snjallsíma eða þá útprentað fyrir veiðiferðina. Athugið að veiðimaðurinn getur alltaf farið aftur inn á skilavefinn og fengið rafrænt veiðikort sent. Á skilavefnum er boðið upp á að menn setji inn mynd af sér fyrir rafræna veiðikortið líkt og þeir væru að hengja viðhengi við tölvupóst. Á rafræna veiðkortinu er QR kóði sem vísar í staðfestingu á vef Umverfisstofnunar að um veiðikort sé að ræða og hvort það sé í gildi.

Þeir sem sækja um veiðikort fyrir 1. mars og afþakka plastkortið lenda í happdrætti þar sem góðir vinningar eru í boði; útivistarmyndavél, GPS-tæki og bækur.

Eins og áður velur veiðimaður hvort hann greiðir fyrir veiðikortið með kreditkorti eða á bankareikning. Sé valið að greiða með kreditkorti er það gert á öruggu vefsvæði greiðslufyrirtækis og um leið og greiðsla hefur verið innt af hendi er staðfesting send samstundis í formi rafræns veiðikorts á veiðikorthafa. Ef greitt er inn á bankareikning getur afgreiðsla tekið allt að viku.

Hreindýraumsóknir

Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á opnun vefsins er umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi framlengdur til og með 29. febrúar. Aðeins er tekið við hreindýraumsóknum á skilavefnum. Þeir sem sækja um kú á svæðum 7, 8 og 9 þurfa að velja milli hefðbundins veiðitíma og nóvemberveiði. Ef veiðimaður er ekki með hreindýraheimild á veiðikorti sínu fær hann viðvörun en til að vera með í útdrætti þarf að vera hreindýraheimild á kortinu. Til þess að fá hreindýraheimild á veiðikortið þurfa menn að vera með B-skotvopnaréttindi. Þeir sem eru með B-réttindi á skotvopnaleyfi sínu geta sett afrit af því inn á umsóknina. Það verður að gerast áður en umsóknarfrestur rennur út þann 29. febrúar næstkomandi.