Frétt

Eins og kunnugt er þá er nú í fyrsta skipti verið að framkvæma verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða í samræmi við breytingar á lögum nr. 64/1994. Framkvæmd prófana hefur gengið ágætlega þó að borið hafi á vissum byrjunarörðugleikum.

Samkvæmt gildandi reglum ber að skila staðfestingu á skotprófi fyrir 1. júlí. Hafi veiðimaður ekki gert það verði leyfi hans úthlutað að nýju. Í ljósi mjög sérstakra aðstæðna nú í ár hefur Umhverfisstofnun ákveðið gefa veiðimönnum kost á að skila staðfestingu á verklegu skotprófi til stofnunarinnar fyrir 20. júlí. Þetta er gert þar sem framkvæmd skotprófa hófst síðar en áætlað var og skv. upplýsingum Umhverfisstofnunar er útlit fyrir að ekki muni takast að anna eftirspurn eftir próftöku á þeim tíma sem nú er til stefnu.

Til að fá útgefið veiðileyfi þarf veiðimaður að hafa skilað staðfestingu á skotprófi og má búast við að útgáfa leyfis taki allt að viku frá því að slík staðfesting berst. Því er mikilvægt að veiðimenn bíði ekki fram á síðustu stundu með að ljúka skotprófi hyggist þeir halda til veiða strax í upphafi veiðitímabils.

Þessu til viðbótar hefur stofnunin, vegna sérstakra aðstæðna í ár, einnig ákveðið að þeir sem ekki ná verklegu skotprófi og missa þannig veiðileyfi, eða þeir sem kjósa að skila inn veiðileyfi sínu með vísan til hins nýtilkomna skotprófs muni fá veiðileyfi sín endurgreidd að fullu hafi þeir fyrir 20. júlí tilkynnt að þeir skili inn leyfi sínu og óski endurgreiðslu.

Þá hefur stofnunin til skoðunar sérstaklega hóp veiðimanna sem með engu móti geta þreytt skotpróf fyrir 20. júlí, t.d. þeir sem eru staddir erlendis.

Umhverfisstofnun telur að með framangreindum breytingum sé brugðist við því tímaálagi sem væntanlegir hreindýraveiðimenn finna nú fyrir en um leið náist markmiðið með skotprófunum, þ.e. að sannreyna færni veiðimanna til að skjóta stóra villibráð á réttan hátt og án óþarfa þjáninga fyrir dýrið.

Rétt er að ítreka að þrátt fyrir framangreindar breytingar er frestur til að ganga frá lokagreiðslu vegna úthlutaðs veiðileyfis óbreyttur. Greiðslu ber samkvæmt lögum að skila fyrir 1. júlí ár hvert en þar sem þann dag ber upp á sunnudag í ár er síðasti mögulegi greiðsludagur í ár mánudagurinn 2. júlí.