Umhverfis- og loftslagsstefna

 

Umhverfis- og loftslagsstefna

 

 

Framtíðarsýn

Umhverfisstofnun ætlar að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stofnunin leggur sitt af mörkum til að skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu sé náð og tekur þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Umhverfisstofnun tryggir að lagalegum kröfum sem tengjast starfsemi hennar sé fylgt og vinnur að stöðugum umbótum á umhverfisstarfi stofnunarinnar. Stofnunin uppfyllir kröfur ISO 9001 og ISO 14001 um gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi og leggur þær til grundvallar í allri vinnu.

Yfirmarkmið

Umhverfistofnun ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á stöðugildi um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2018. Stofnunin stefnir einnig að kolefnishlutlausri starfsemi með því að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun frá árinu 2019.

Gildissvið

Stefna þessi tekur til umhverfisáhrifa af innri rekstri Umhverfisstofnunar og varðar alla starfsmenn stofnunarinnar. Umhverfisstofnun er með starfsstöðvar á 9 stöðum um land allt. Reynt er eftir fremsta megni að mæla þá umhverfisþætti sem falla undir umfang stefnunnar á öllum starfsstöðvum. 

Umfang

Umhverfis- og loftslagsstefna Umhverfisstofnunar fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt leiðbeiningum um loftslagsstefnur opinberra aðila en jafnframt um umhverfisáhrif stofnunarinnar í víðara samhengi. Stefnan tekur til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni:

Samgöngur

  • Losun GHL vegna aksturs á bifreiðum stofnunar
  • Losun GHL vegna flugferða starfsmanna innanlands
  • Losun GHL vegna flugferða starfsmanna erlendis
  • Losun GHL vegna aksturs á bílaleigu- og leigubílum
  • Fjöldi samgöngusaminga sem stofnunin gerir við starfsmenn

Orkunotkun

  • Rafmagnsnotkun á starfsstöð í Reykjavík
  • Heitavatnsnotkun á starfsstöð í Reykjavík

Úrgangur

  • Losun GHL vegna lífræns úrgangs sem fellur til á öllum starfsstöðvum
  • Losun GHL vegna blandaðs úrgangs sem fellur til á öllum starfsstöðvum
  • Heildarmagn úrgangs sem fellur til á öllum starfsstöðvum
  • Magn útprentaðs skrifstofupappírs á öllum starfsstöðvum
  • Endurvinnsluhlutfall á öllum starfsstöðvum

Innkaup

  • Hlutfall umhverfisvottaðs skrifstofupappírs sem stofnunin kaupir 
  • Hlutfall umhverfisvottaðrar prentþjónustu sem stofnunin kaupir 
  • Magn ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir sjálf og notuð eru á starfsstöð í Reykjavík
  • Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir sjálf og notuð eru á starfsstöð í Reykjavík 
  • Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu sem stofnunin kaupir fyrir starfsstöð í Reykjavík 

Áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum

  • Drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar 
  • Eflum fjarfundarmenningu
  • Drögum úr úrgangsmyndun og aukum endurvinnslu 
  • Hugum að orkusparnaði  
  • Fræðum starfsfólk um innra umhverfisstarf og önnur umhverfismál
  • Hvetjum til aukinnar umhverfisvitundar í samfélaginu
  • Stundum umhverfisvæn innkaup
  • Fylgjum Grænum skrefum
  • Kolefnisjöfnum losun okkar með ábyrgum hætti  
  • Kynnum okkur tæknilegar lausnir sem auðvelda umhverfisstarf  

Eftirfylgni

Síðan 2011 hefur Umhverfisstofnun haldið Grænt bókhald þar sem teknir eru saman þýðingarmestu umhverfisþættir í starfseminni. Niðurstöður bókhaldsins eru notaðar til að móta stefnu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum.

Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Umhverfisráð sér um að taka bókhaldið saman í samstarfi við teymi rekstrar og þjónustu. Umhverfis- og loftslagsstefnan er rýnd árlega af umhverfisráði og áherslur, markmið og aðgerðaráætlun uppfærð þegar niðurstöður Græns bókhalds liggja fyrir. Allar uppfærslur verða lagðar fyrir yfirstjórn til samþykktar.

Niðurstöðum Græns bókhalds og árangri umhverfis- og loftslagsstefnu er miðlað til samfélagsins á vef Umhverfisstofnunar og í rafrænni ársskýrslu ár hvert. Einnig birtast niðurstöður Græns bókhalds á heimasíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana.

 

Umhverfis- og loftslagsstefna Umhverfisstofnunar tekur mið af:

Stefnan staðfest af yfirstjórn 4. september 2023.