Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lagt stjórnvaldssekt á flugfélagið Nomadic Aviation Group LLC að upphæð 34.397.370 króna vegna vanrækslu flugrekandans á að standa skil á losunarheimildum fyrir árið 2022.  

Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði og flugi. Meginreglan er að sá borgi sem mengar. Þeir aðilar sem losa meira en áætlað var þurfa að kaupa sér fleiri losunarheimildir.

Fjárhæð stjórnvaldssektarinnar er lögbundin og samsvarar 100 evrum í íslenskum krónum vegna hverrar losunarheimildar sem ekki er staðið skil á, en eitt tonn af CO2 jafngildir einni losunarheimild. 

Umhverfisstofnun hefur heimild til að áætla losun ef  flugrekandi stendur ekki skil á vottaðri losunarskýrslu fyrir tilgreindan frest eða skýrslan er ófullnægjandi. Þessi heimild var nýtt og heildarlosun áætluð, í samræmi við gögn frá Eurocontrol, sem 2.307 tonn CO2

Álagning sektarinnar hefur ekki áhrif á skyldur flugrekandans til að standa skil á losunarheimildum eða kaupa nýjar losunarheimildir sem samsvara losun frá rekstri flugrekandans á árinu 2022.

Um ákvörðunina: 

Síðasti dagur til að gera upp losunarheimildir fyrir losun sem átti sér stað á árinu 2022 var 30. apríl 2023. Á þeim tímapunkti hafði flugrekandinn ekki staðið skil á neinum losunarheimildum.Stjórnvaldssektin var lögð á í samræmi við 43. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál (nú 30. gr. laga nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir) og ETS tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2003/87/EB.  

Nomadic hefur rétt á að skjóta ákvörðuninni til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins innan þriggja mánaða frá móttöku hennar.