Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur stofnað þverfaglegan starfshóp um umhverfisheilsu (e. public health) með það að leiðarljósi að veita faglega ráðgjöf þegar kemur að áhrifum umhverfis á heilsu fólks.  

Áhersla hópsins er að: 

  • Vekja athygli á málaflokknum á víðum vettvangi 
  • Miðla upplýsingum
  • Styrkja samstarf við aðra sambærilega hópa   
  • Auka vísindalega þekkingu sérfræðinga Umhverfisstofnunar um tengsl umhverfisálags á heilsu manna

Hópurinn starfar í samræmi við stefnu Umhverfisstofnunar þar sem áhersla er lögð á heilnæmi.  

Fjölluðu um umhverfismál á Læknadögum

Á dögunum tóku fulltrúar starfshópsins þátt í umhverfisþingi lækna sem var hluti af Læknadögum 2023. Óskað var eftir því að fá erindi frá Umhverfisstofnunin. Einnig voru fulltrúar frá HÍ, Loftslagsráði og Landvernd. Fulltrúar Umhverfisstofnunar fjölluðu um loftmengun á Íslandi og áhrif hennar á heilsu, stöðu fráveitumála á Íslandi, þar sem komið var inn á fjölónæmar bakteríur, og svo að lokum var farið yfir úrgangsmál í víðu samhengi.  

Vonast eftir áherslu á tengsl umhverfis og heilsu

Í kjölfar umhverfisþings lækna var Félag lækna gegn umhverfisvá stofnað. Umhverfisstofnun fagnar því að heilbrigðisstéttir taki að sér stærra hlutverk í að vekja athygli á áhrifum umhverfisþátta á heilsu manna. Vonast er til að starfshópur um umhverfisheilsu Umhverfisstofnunar muni eiga gott samstarf við Félag lækna um umhverfisvá. Einnig er vonast til að fleiri sambærileg félög verði sett á fót í náinni framtíð til að mæta aukinni eftirspurn eftir þekkingu um áhrif umhverfis á heilsu fólks.

Um 800 manns tóku þátt í Læknadögum 2023 sem fram fóru í Hörpu 16. - 20. janúar / Mynd: GAG/Læknablaðið.