Stök frétt

Hlutfall fíns svifryks á mælistöðinni við Dalsmára í Kópavogi um áramótin var um 90% / Mynd: Hugi Ólafsson

Mælistöðin við Dalsmára í Kópavogi er sú stöð á höfuðborgarsvæðinu sem sýnir venjulega hæstu gildi svifryks um áramót. Hún er í miðju íbúðarhverfi og því mikið skotið upp af flugeldum í kringum hana. Um nýliðin áramót var styrkur svifryks á mælistöðinni í Dalsmára lægri en oft hefur verið um áramót. 

Meðaltal svifryks minna en 10 µm í þvermál (PM10) var 16,3 µg/m3 en heilsuverndarmörk eru 50 µg/m3

Styrkur fíns svifryks (minna en 2,5 µm í þvermál; PM2,5) var 14,9 µg/m3 en ekki eru til sólarhrings heilsuverndarmörk fyrir það efni. Hins vegar er hlutfall fíns svifryks (PM2,5) venjulega mjög hátt um áramót og þessi áramótin mældist hlutfall fíns svifryks um 90% af svifrykinu. Til samanburðar má nefna að árlegt hlutfall fíns svifryks á þessari mælistöð er að meðaltali 70%. 

Tafla: Mælingar á loftgæðum í Dalsmára frá kl. 18 á gamlársdag og til kl. 08 á nýársdagsmorgun.

Styrkur svifryks áramótin 2022-2023

Loftgæðamælingar sýndu að styrkur svifryks í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu um nýliðin áramót var undir heilsuverndarmörkum á öllum mælistöðvum. Veðuraðstæður eru helsta ástæða þess að mengun varð ekki meiri.  Vindhraði nú um áramót var nógu mikill til að mengunin náði að þynnast jafnóðum út en safnaðist ekki upp. 

Hins vegar, þegar veður er stillt þá getur mengun af völdum flugelda orðið mjög há. Sem dæmi má nefna, þá fór styrkur svifryks áramótin 2016-2017 fyrstu klukkustund ársins í Dalsmára upp í rúmlega 2000 µg/m3. Ári síðar, áramótin 2017-2018 fór fyrsta klukkustund nýs árs í næstum 4000 µg/m3. Til samanburðar má nefna að hæstu klukkustundargildi hvers árs vegna mengunar frá bílaumferð fara sjaldan yfir 200 µg/m3.

Fínt svifryk hættulegra heilsu

Þess má geta að áhrif svifryks eru einkum háð stærð agnanna og eru smærri agnir hættulegri heilsu fólks en þær stærri. Stærri agnir en 10 µm í þvermál (PM10) eru síaðar út í nefi og nefholi, en minni agnir ná niður í lungnaberkjur og allra smæstu agnirnar, þ.e. fínt svifryk (minna en PM2,5), kemst niður í lungnablöðrur og þaðan í blóðrásarkerfi. Til samanburðar má nefna að mannshár er um 60 µm í þvermál. 

Mikilvægt er að muna að það að vera útsettur fyrir miklu magni af svifryki, þó það sé ekki nema í örfáar klukkustundir, getur leitt til neikvæðra heilsufarsáhrifa eins og t.d. þess að einkenni versni  hjá fólki sem er með astma (eða aðra lungnasjúkdóma) og þeim sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum.

 

Tengt efni: