Stök frétt

Líflegar umræður mynduðust um innleiðingu sveitarfélaga á hringrásarlögunum á ráðstefnunni Samtaka um hringrásarhagkerfi – réttur farvegur til framtíðar sem haldin var á Grand Hótel þann 7. október sl.

Horfa á upptöku af ráðstefnunni. 

Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu að ráðstefnunni í sameiningu en tilefni hennar var útgáfa handbókar um úrgangsstjórnun og uppskera átaksverkefnis sambandsins, Samtaka um hringrásarhagkerfi. Önnur útgáfa handbókarinnar var einmitt gefin út þennan sama dag en hún er vegvísir sveitarfélaganna í úrgangsmálum og má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Mynd: Ráðstefnustjóri var Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar.

Mikil áhersla var á að virkja þátttakendur til umræðna á ráðstefnunni.

Sú nýbreytni var höfð á að brjóta upp dagskrána með hraðpallborði á milli erinda og undir lok ráðstefnu var þátttakendum skipt í umræðuhópa. Hóparnir ræddu kosti og galla Borgað þegar hent er, innheimtukerfi sem er byggt á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir þann úrgang sem hann lætur frá sér.

Mynd: Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarhagkerfis hjá SORPU bs., leiddi hraðpallborðin á ráðstefnunni.

Mynd: Mikil áhersla var á virkni þátttakenda á ráðstefnunni. 

Staða sveitarfélaga – aukinn kostnaður en samvinna leiðir til hagkvæmni

Helstu niðurstöður ráðstefnunnar voru þær að  sveitarfélög á Íslandi skorti mannauð og þekkingu í málaflokknum til að geta sinnt honum svo vel geti talist.

Sveitarfélög greiða um milljarð með málaflokknum en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Guðmundar Kristjáns Óskarssonar, dósents við HA, mun kostnaðurinn hækka með nýju lögunum. Til að koma til móts við sveitarfélögin þarf að stórauka fjárfestingu í innviðum, auka flokkun og endurvinnslu, hefja byggingu sorpbrennslustöðvar og breyta innheimtu svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarfélögin vilja meiri samvinnu og samtal sem myndi auðvelda þeim þær breytingar sem fram undan eru og auka hagkvæmni þó tímaramminn væri þröngur.

Hátæknibrennslur komu einnig til tals á ráðstefnunni og er ljóst að taka þarf ákvörðun um forystu og ábyrgð í því máli.

Mynd: Guðmundur Kristján Óskarsson, dósent við HA, kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á kostnaði sveitarfélaga í úrgangsmálum.

Breytingar á framlengdri framleiðendaábyrgð munu einnig koma að hluta upp á móti þessum aukna kostnaði sveitarfélaga en nýju hringrásarlögin gera ríkari kröfur til Úrvinnslusjóðs.

Þá kom fram að sveitarfélögin þurfa að tryggja í sinni úrgangsstjórnun að kostnaðarþátttaka Úrvinnslusjóðs sé virk og í samræmi við lög um úrvinnslugjald.

Virkni og þátttaka

Markmiðið með ráðstefnunni var að gefa yfirlit yfir þau verkfæri og leiðir sem sveitarfélög hafa í úrgangsstjórnun og aðstoðar þau við að tileinka sér þær breytingar sem verða á úrgangslöggjöfinni þann 1. janúar 2023.

Einnig var markmið ráðstefnunnar að skapa lifandi vettvang upplýsinga og umræðu um stöðuna sem skilaði sér augljóslega í virkni þátttakenda og kraftmiklum umræðum.

Við þökkum fyrirlesurum og þátttakendum ráðstefnunnar, á staðnum og í streymi, kærlega fyrir að vera með á þessum degi.   

Mynd: Bryndís Skúladóttir sagði frá ferlinu að baki vinnu við gerð handbókar í úrgangsstjórnun.

Mynd: Unnur Brá Konráðsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra, flutti ávarp í fjarveru hans. Kom hún sérstaklega inn á að undanþáguúrræði um sérstaka söfnun heimilisúrgangs í lögum yrði túlkað þröngt og yrði ekki mikið svigrúm til þess að veita undanþágu.

Mynd: Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, fór yfir hlutverk stofnunarinnar við innleiðingu á hringrásarhagkerfinu í sínu erindi og minnti á að það væri samvinnuverkefni hins opinbera, sveitarfélaga, atvinnulífsins og íbúa.

 

Ljósmyndari: Eyþór Árnason.