Stök frétt

Mynd: Eva Brnusakova, landvörður á Geysi / Ljósm: Þórdís Björt Sigþórsdóttir.

Föstudaginn 16. september fögnum við Degi íslenskrar náttúru. 

Landverðir Umhverfisstofnunar taka á móti gestum á tveimur friðlýstum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.

Landverðir bjóða upp á fróðleik um það sem fyrir augu ber til að auka ánægju, upplifun og áhuga gesta á umhverfinu. Þeir veita einnig upplýsingar um önnur friðlýst svæði í nágrenninu og um landvarðastarfið.

Landverðir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli bjóða upp á fjölskyldustund í Tröð á Hellissandi frá kl. 16 – 17. Farið verður í Bárðarleika og náttúruskoðun að hætti landvarða.

Gestastofur Umhverfisstofnunar á Ísafirði og Mývatni verða opnar og allir velkomnir að líta við.

Landverðir Umhverfisstofnunar hafa fasta viðveru á gosstöðvunum á Reykjanesi. Við hvetjum alla sem eiga leið um að ræða við landverði og fá upplýsingar um svæðið. 

Standa vörð um náttúru Íslands

Landverðir búa yfir gríðarlegum fróðleik um náttúru Íslands. Þeir starfa í þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum víðs vegar um landið. Landverðir hafa ólíka menntun og reynslu en brennandi áhugi á náttúru Íslands og náttúruvernd sameinar hópinn í starfi.

Landverðir fylgjast með því að réttur náttúrunnar sé virtur, meðal annars með því að hafa eftirlit með umferð og umgengni fólks. Landverðir sjá um að merkja göngustíga, leggja nýja og halda þeim við. Á þann hátt opna þeir svæðin fyrir umferð gangandi manna en búa jafnframt  þannig um að náttúran hljóti sem minnstan skaða af.

 

 

Tengt efni: