Það var þétt setið í Norðurljósasal Hörpu 3. maí sl. þar sem Loftslagsdagurinn 2022 fór fram. Þar komu fram helstu sérfræðingar þjóðarinnar í loftslagsmálum og fjölluðu um málaflokkinn á aðgengilegan hátt.
Þátttaka í Loftslagsdeginum fór fram úr vonum og færri komust að en vildu í Hörpu. Viðburðinum var einnig streymt á heimasíðu ráðstefnunnar og fréttamiðlum RÚV og Vísis.
Horfa á upptöku af Loftslagsdeginum.
Mynd: Það var húsfyllir í Norðurljósasal Hörpu / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Fyrsti hluti dagskrárinnar var tileinkaður losun og þróun loftslagsmála á Íslandi. Nicole Keller og Ásta Karen Helgadóttir, sérfræðingar í teymi losunarbókhalds, fóru yfir nýjustu upplýsingar um losun Íslands í mismunandi geirum og hvernig framtíðin lítur út.
Sjá nánar í samantekt á niðurstöðum Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Mynd: Ásta Karen Helgadóttir, sérfræðingur í teymi losunarbókhalds í viðtali hjá RÚV / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Á dagskrá voru 19 erindi í fjórum málstofum:
Erindin fluttu sérfræðingar frá Umhverfisstofnun og eftirfarandi samstarfsaðilum: Hafrannsóknarstofnun, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landgræðslunni, Landsvirkjun, Loftslagsráði, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Skógræktinni og Veðurstofu Íslands.
Fundarstjóri var Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice.
Skoða dagskrá Loftslagsdagsins.
Mynd: Jóhannes B. Urbancic Tómasson, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, fjallaði um grænt bókhald ríkisstofnana / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Í hádegishléi var sýning á hlutverkaleik um loftslagsaðgerðir sem fer fram í sýndarveruleika. Leikurinn nefnist Garden of Choices og er hluti af verkefninu Astrid Loftslagsfræðsla sem er leitt af hönnunarfyrirtækinu Gagarín.
Þátttakendur í leiknum voru Unnur Björnsdóttir, listkennaranemi, Egill Hermannsson, varaformaður Ungra umhverfissinna, Vilhjálmur Árnason, Alþingismaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Þórunn Wolfram Pétursdóttir, sviðsstjóri hjá Landgræðslunni og Andrés Ingi Jónsson, alþingismaður.
Leikurinn var spilaður á sviðinu í salnum og áhorfendur gátu fylgst með á skjá.
Mynd: Þátttakendur í hlutverkaleik um loftslagsaðgerðir sem spilaður er í sýndarveruleika / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Þátttakendur í Loftslagsdeginum gátu tekið þátt í CO2 áskorun. Hún fólst í því að reyna að lyfta þyngd sem nemur viku útblæstri frá bensínbíl. CO2 áskorunin var í boði Vistorku og snýst um að gera koltvísýring áþreifanlegri til að auka vitund fólks.
Mynd: Vilhjálmur Árnason, Alþingismaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis tekur þátt í CO2 áskoruninni / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Markmið Loftslagsdagsins er að fjalla um loftslagsmál í íslensku samhengi þannig að sem flestir geta tileinkað sér umræðuna. Við undirbúning var lögð sérstök áhersla á að einfalda umræðuna, samræma skilaboð og halda fagmáli í lágmarki. Það skilar sér vonandi í aukinni vitund almennings um loftslagsmál og helstu aðgerðir.
Sem fyrr segir var frábær þátttaka á staðnum og í streymi og ljóst að Loftslagsdagurinn er kominn til að vera.
Sjáumst að ári!
Mynd: Stefán Gíslason var fundarstjóri Loftslagsdagsins 2022 / Ljósm: Gunnar Sverrisson.
Tengt efni: