Stök frétt

Nokkur samdráttur í losun er merkjanlegur í niðurstöðum Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fyrir árið 2020. Mestur munur er vegna samdráttar í notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum en gera má ráð fyrir að sú breyting skýrist að töluverðu leyti af áhrifum heimsfaraldurs Covid-19. 

Þess ber að geta að aukning er í losun frá úrgangi og jarðvarmavirkjunum milli ára. Þegar horft er til lengri tíma má sjá að losun á beinni ábyrgð Íslands hefur dregist saman um 13% frá árinu 2005, og  5,4% milli áranna 2019-2020. 

Umhverfisstofnun hefur einnig gert framreikninga á losun Íslands fram til ársins 2040 sem sýna að losun mun líklega halda áfram að dragast saman á næstu árum. Þessir framreikningar byggja m.a. á spám um þróun mannfjölda, eldsneytisnotkun og verga landframleiðslu og á aðgerðum úr Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Vert er að nefna að niðurstöður framreikninga Umhverfisstofnunar taka aðeins til þeirra aðgerða sem unnt var að meta. Líklegt þykir að þegar fleiri aðgerðir taka á sig skýrari mynd muni þær hafa þau áhrif að framreiknaður samdráttur aukist. Einnig mun áframhaldandi þróun  aðferðafræði við útreikninga leiða til minni óvissu í niðurstöðum. Samkvæmt framreikningum Umhverfisstofnunar mun losun á beinni ábyrgð Íslands dragast saman um 28% til ársins 2030 m.v. 2005. Ríkisstjórn Íslands hefur í stjórnarsáttmála sínum sett sér markmið um að losun á beinni ábyrgð Íslands dragist saman um 55% til ársins 2030 m.v. 2005, en markmið samkvæmt núgildandi alþjóðasamningum er að fyrrnefnd losun dragist saman um 29% til ársins 2030 m.v. 2005.  

Ítarlega verður fjallað um þessar tölur á Loftslagsdeginum 3. maí í Hörpu. Umhverfisstofnun kynnir þar með stolti nýjan gagnabirti um losun gróðurhúsalofttegunda sem verður aðgengilegur í framhaldinu á vefsíðu stofnunarinnar en þar er hægt að nálgast myndræna framsetningu á gögnum um loftslagsmál í fjölbreyttu samhengi.  

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2020  

Losun Íslands, að meðtalinni losun vegna landnotkunar, var 13.519 kílótonn1 af CO2-ígildum (kt CO2-íg)2 árið 2020 og dróst hún saman um 1,6% milli áranna 2019 og 2020. Samkvæmt framreikningunum verður þessi losun 11.970 kt CO2-íg. árið 2040. 
Að frátalinni landnotkun og skógrækt3 , var losunin 4.510 kt CO2-íg, en landnotkun er stærsti einstaki losunarflokkur Íslands (9.010 kt CO2-íg) sem fellur þó ekki með sama hætti og aðrir geirar undir núverandi skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Ef horft er til losunar án landnotkunar þá dróst hún saman um 4,3% milli áranna 2019 og 2020. Samkvæmt framreikningunum verður þessi losun 3.620 kt CO2-íg. árið 2040. Losun Íslands (án landnotkunar og alþjóðasamgangna), þ.e. fyrrnefnd 4.510 kt CO2-íg má skipta í tvo megin flokka út frá skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Þetta eru flokkarnir: losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands4 og losun sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (EU ETS)5

 

 

Losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands var 2.716 kt CO2-íg. og dróst saman um 5,4% milli áranna 2019 og 2020. Samkvæmt framreikningunum verður þessi losun 2.261 kt CO2-íg. árið 2030 og mun samdráttur þá nema 28% miðað við 2005. 

Ítarlegri upplýsingar um losunina og framreikningana má finna í skýrslum Umhverfisstofnunar

 

Mynd 1:  Losun gróðurhúsalofttegunda (kt CO2-ígildi ) á Íslandi og framreiknuð losun (án landnotkunar og skógræktar, alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga) 

 

Meginbreytingar í losun milli 2019 og 2020 eru: 

  • Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 13%, sem líklega má skýra af COVID-19 sem hafði bæði áhrif á ferðavenjur Íslendinga og fækkun ferðamanna. 
  • Losun frá strandsiglingum og innanlandsflugi dróst saman um 53%. 
  • Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst um tæp 8% og er það að nokkru leyti vegna aukinnar hitavatnsframleiðslu úr gasríkum holum. 
  • Losun vegna urðunar úrgangs jókst um 16% og tengist það minni metansöfnun á urðunarstöðum en árið á undan sem var metár í metansöfnun. 
  • Binding vegna skógræktar jókst um 4%. 

Vegasamgöngur, fiskiskip og iðragerjun stærstu losunarþættirnir á beinni ábyrgð Íslands 

Þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands (losun án landnotkunar, EU ETS og alþjóðasamgangna) dróst hún saman um 5,4% milli áranna 2019-2020, og nam 2.716 kt CO2-ígildum árið 2020. Það ár voru stærstu einstöku losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands vegasamgöngur (30%), fiskiskip (19%) og iðragerjun búfjár6 (11%). 


Mynd 2: Stærstu losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands árið 2020. Losunarþættir minni en 5% eru undanskildir á þessari mynd

Loftslagsmarkmið og uppgjör  

Ísland gekkst undir auknar skuldbindingar í loftslagsmálum á öðru tímabili Kýótó-bókunarinnar, sem nær yfir losun á árunum 2013-2020 og var ákveðið að uppfylla þær skuldbindingar sameiginlega með ríkjum ESB. Íslandi var úthlutað rúmlega 15 milljónum losunarheimilda7 fyrir losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands á árunum 2013-2020. Þar að auki safnaði Ísland tæplega 4 milljónum bindingaeininga vegna bindingar kolefnis í vistkerfum landsins. Losun Íslands á þessu tímaskeiði nam þó 23 milljónum t CO2-íg, sem þýðir að upp á vantar tæplega 4 milljónir losunarheimilda og mun íslenska ríkið þurfa að kaupa heimildir fyrir mismuninum áður en tímabilið verður gert upp. Ekki liggur fyrir hver kostnaðurinn verður. 

Með Parísarsáttmálanum, sem nær yfir losun áranna 2021-2030, ákvað Ísland að vera með í sameiginlegu markmiði Íslands, Noregs og ESB um að ná 40% samdrætti í losun til ársins 2030, miðað við árið 1990. Það markmið hefur verið hækkað í 55% sem krefst endurskoðunar markmiða einstakra hlutaðeigandi ríkja og hefur hlutur Íslands í því markmiði ekki verið ákvarðaðaður. 

Miðað við núverandi yfirmarkmið um 40% samdrátt hefur Ísland skuldbundið sig til að ná 29% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Samkvæmt framreikningunum Umhverfisstofnunar mun losun á beinni ábyrgð Íslands dragast saman um 28% til ársins 2030 m.v. 2005.   


 Mynd 3: Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 2005-2020 og framreikningar 2021-2040 /kt CO2-ígildi) 


1Eitt kílótonn jafngildir þúsund tonnum.
2Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum undanskilin.
3Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (e. Land use, land use change and forestry) (LULUCF).
4Losun á beinni ábyrgð Íslands er skilgreind samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins 2018/842 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda.
5EU ETS er viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
6Iðragerjun er ferli í meltingarfærum dýra vegna niðurbrots fæðu sem veldur metanlosun.
7Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðígildi á tilteknu tímabili.