Stök frétt

Innflutningur á plöntuverndarvörum dróst saman um 42% á árinu 2020 miðað við fyrri ár. 4800 kg af plöntuverndarvörum voru fluttar inn til landsins. Þar af voru illgresiseyðar enn stærsti hlutinn eða um 58%.

Sveiflur í innflutningi

Innflutningur á plöntuverndarvörum sveiflast talsvert milli ára. Meginástæðan er sú að fluttar eru inn stórar sendingar af vörum sem nokkur ár tekur að selja. Önnur ástæða getur verið sú að markaðsleyfi einstakra vara falla úr gildi og því ekki mögulegt að flytja þær inn og markaðssetja þær. 

Innflutningur undir áhættuvísi

Umhverfisstofnun tekur saman upplýsingar á hverju ári um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara. Upplýsingarnar byggja á eftirlitsverkefnum stofnunarinnar og eru m.a. nýttar til þess að reikna út áhættuvísa. 

Áhættuvísarnir eru ákveðin markmið sem stjórnvöld hafa sett varðandi innflutning á plöntuverndarvörum. Þeir eru settir fram í Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara 2021-2036. Samkvæmt Aðgerðaáætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki nema meiru en 12 tonnum á ári. Ljóst er að því markmiði var náð á árinu 2020.

Flestir með tilskilin leyfi

97% einstaklinga voru með gild notendaleyfi við kaup á notendaleyfisskyldum plöntuverndarvörum árið 2020. Það er sambærilegt hlutfall og fyrri ár. Hlutfall einstaklinga með tilskilin leyfi helst því áfram hátt og eru það mjög góð tíðindi.

Við sölu á notendaleyfisskyldum vörum þurfa einstaklingar að framvísa gildu notendaleyfi sem gefið er út af Umhverfisstofnun. Notendaleyfisskyldar vörur eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni en ekki í sölu til almennings, þar sem möguleg hætta getur stafað af meðferð þeirra á heilsu og umhverfi og því nauðsynlegt að notendur þessara vara hafi aflað sér þekkingar á öruggri meðferð þeirra. 

 

Upplýsingar um eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar