Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Nokkuð hefur borið á því að gestir sem heimsækja eldstöðvarnar í Geldingadölum sýni ekki nægilega gætni á ferð sinni um svæðið. Til dæmis með því að stíga ofan á hraunið, kasta á það grjóti eða skilja eftir sig önnur ummerki.

Einstakar jarðminjar

Hraunið frá eldstöðvunum í Geldingardölum eru einstakar jarðminjar sem við þurfum að bera virðingu fyrir og vernda. Þar erum við líklega að verða vitni að fyrsta dyngjugosinu á Íslandi síðan land var numið. Mikilvægt er að kasta ekki grjóti á hraunið, krafsa ekki í það eða skilja eftir sig önnur ummerki. Eldhraun eru undir sérstakri vernd samkvæmt 61. gr laga um náttúruvernd og því er grjótkast upp á hraunið, krafs eða traðk í raun brot á þeirri vernd sem þau eiga að njóta.  

Allt að 1200°C heitt hraun 

Hraunið er gríðarlega heitt og getur tekið langan tíma að kólna sérstaklega þar sem gosið getur haldið áfram þó við sjáum ekki hreyfingu í gígnum sjálfum. Hraunið rennur þá undir svartri skelinni í hraunhellum eða hvelfingum. Hraunskelin getur auðveldlega brotnað og undir henni getur verið allt að 1200°C heitt hraun. Það er því varhugavert að klifra upp á hraunið og ganga ofan á því. Slík hegðun getur einnig skemmt jarðminjarnar. 

Landverðir Umhverfisstofnunar vinna við upphaf gönguleiðar að eldstöðvunum í Geldingadal og upplýsa og fræða gesti um hvernig er hægt að njóta þess að sjá stórbrotin eldsumbrotin í sátt við náttúruna og á öruggan hátt. 

Hagnýtar upplýsingar tengdar eldgosinu á vef Umhverfisstofnunar.