Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979 vegna einstakrar náttúru og jarðminja. Markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki er að fjalla um markmið verndunar svæðisins og hvernig stefnt skuli að því að viðhalda verndargildi þess. Leiðarljós áætlunarinnar er að varðveita einstök náttúruverðmæti friðlandsins, víðerni og góða upplifun gesta í samráði við hagsmunaaðila svo allir hafi kost á að njóta verðmæta friðlandsins um ókomna framtíð.

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki hefur verið umfangsmikið verkefni sem unnið hefur verið í samstarfi við sveitarfélag og hagsmunaaðila. Mikil áhersla var lögð á samráð við vinnuna og má þá nefna að haldnir voru opnir kynningarfundir og sérstakir fundir með hagsmunaaðilum auk þess sem birt var rafræn kynning þegar tillaga að áætluninni var auglýst þar sem aðstæður í samfélaginu buðu ekki upp á að haldinn væri opinn kynningarfundur. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar í 6 vikur í apríl 2020. Úrvinnsla athugasemda og önnur vinna í tengslum við áætlunina er nú lokið og hefur áætlunin verið samþykkt af ráðherra. Með áætluninni fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára þar sem gerð er grein fyrir þeim aðgerðum sem brýnt er að fara í og er hún uppfærð árlega. 

Í tengslum við útgáfu áætlunarinnar hafa verið gefin út þrjú kynningarmyndbönd sem fara yfir samráðsferliðáætlunina í heild sinni og aðgerðaáætlunina

Áætlunina og önnur gögn í tengslum við hana má finna á ust.is/fjallabak.