Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Haraldur Hugosson - Unsplash

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið upp á dag vatnsins þann 22. mars frá árinu 1993. Markmiðið með deginum er m.a. að auka vitund fólks á nauðsyn þess að hafa aðgang að hreinu vatni en í dag skortir um 2,3 milljarð manna aðgang að öruggu vatni sem jafngildir einum af hverjum þremur jarðarbúum. Eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er einmitt að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og tryggja sjálfbærni á nýtingu þess. Umhverfisstofnum kemur að fjölmörgum málum sem tengjast vatni og notkun og ástandi þess, m.a. framfylgir stofnunin lögum um stjórn vatnamála. Í því sambandi er bent á að vatnaáætlun, vöktunaráætlun og aðgerðaáætlun skv. þeim lögum er nú til opinberrar kynningar á vatn.is. Umhverfisstofnun er einnig ein af þeim stofnunum sem eiga aðild að Íslensku vatnafræðinefndinni á vegum UNESCO.

Verðmæti vatns
Hér á Íslandi höfum við hingað til tekið það sem gefnum hlut að hafa aðgang að hreinu vatni og oft vill gleymast að skortur á því hefur vissulega áhrif á heilsu manna. Ljóst er þó að við þurfum ekki að kljást við jafn alvarlegar áskoranir og margar aðrar þjóðir (https://soundcloud.com/unfao/water-to-me).

Vatn er mikilvæg auðlind fyrir hag og lífsgæði þjóðarinnar og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja gæði auðlindarinnar og sjálfbæra nýtingu hennar.

Heilnæmt vatn í nægu magni er forsenda flests sem við tökum okkur fyrir hendur og flestra þeirra framleiðniferla sem við byggjum á hagsæld landsins á auk þess sem vatn er samtvinnað orkuframleiðslu landsins í mun meira mæli en á flestum öðrum stöðum. Vatn er þannig mjög stór hluti af lífsgæðum Íslendinga. En það eru blikur á lofti og mikilvægt að huga að áherslum með langtímamarkmið að leiðarljósi. Breytt landnýting s.s. aukinn þéttleiki byggðar og aukin áhersla á framleiðslu afurða sem byggja á nýtingu vatns s.s. fiskeldi geta orsakað vatnstöku umfram svæðisbundna getu, aukin þörf lítt mengandi orkugjafa hefur áhrif á vatnafarslega eiginleika auk þess sem vænta má að loftslagsbreytingar geta aukið álag á vatn.

Á degi vatnsins í ár er fólk einmitt hvatt til þess að hugsa um hvers virði vatnið er og hvað við getum gert til að viðhalda þeim lífsgæðum sem fylgja öruggu framboði af hreinu vatni. 

Til hamingju með daginn!