Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Mynd: Jan Kopnva - Unsplash

Umhverfisstofnun tekur saman upplýsingar um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara fyrir ár hvert sem byggja á eftirlitsverkefnum m.a. um innflutning og sölu plöntuverndarvara.

Mun minna af plöntuverndarvörum var sett á markað á árinu 2019 miðað við fyrri ár. Þannig nam magnið um 8.300 kg, sem er til dæmis um 54% samdráttur frá árinu 2018. Líkt og fyrri ár voru illgresiseyðar enn stærsti hluti plöntuverndarvara á markaði 2019 eða um 71%.

Talsverðar sveiflur eru á milli ára af innflutningi plöntuverndarvara og er meginástæðan sú að teknar eru inn stórar sendingar af vörum sem nokkur ár tekur að selja. Önnur ástæða fyrir því að magn varanna á markaði minnkar getur verið sú að markaðsleyfi einstakra vara falla úr gildi og ekki er mögulegt að markaðssetja þær lengur. Það gæti átt við árið 2019 þar sem markaðsleyfi nokkra illgresiseyða féllu úr gildi og hurfu því af markaði. Einnig var mun minna sett á markað af illgresiseyðum sem innihalda virka efnið glýfosati en á fyrri árum.

Við sölu á notendaleyfisskyldum vörum þurfa einstaklingar að framvísa gildu notendaleyfi sem gefið er út af Umhverfisstofnun. Notendaleyfisskyldar vörur eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni en ekki í sölu til almennings, þar sem möguleg hætta getur stafað af meðferð þeirra á heilsu og umhverfi og því nauðsynlegt að notendur þessara vara hafi aflað sér þekkingar á öruggri meðferð þeirra. 

Hlutfall þeirra sem voru með notendaleyfi í gildi við kaup á notendaleyfisskyldum plöntuverndarvörum á árinu 2019 var 97% og hefur aldrei verið jafn hátt frá því að eftirlit Umhverfisstofnunar með þessu hófst. Eru það mjög góð tíðindi.

Hér má finna nánari upplýsingar eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar:
Úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2019.
Söluskrár 2019 fyrir notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur og útrýmingarefni.
Uppfærð skýrsla um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara 2012-2019.