Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Rjúpnaveiðitímabil ársins hefst sunnudaginn 1. nóvember og verður með sama sniði og í fyrra í samræmi við reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Þannig verður heimilt að veiða frá og með 1. nóvember til og með 30. nóvember, frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili. Veiðar eru bannaðar á miðvikudögum og fimmtudögum innan tímabilsins. Umhverfisstofnun minnir veiðimenn á mikilvægi persónubundinna sóttvarna.

Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til að gæta hófs í veiðum eins og undanfarin ár og athuga hvort veiðikortið sé í gildi áður en gengið er til rjúpna. Lögum samkvæmt ber öllum þeim sem stunda veiðar að afla sér veiðikorts og skal korthafi ætíð bera kortið á sér á veiðum og framvísa því sé þess óskað. Hægt er að kanna hvort veiðikort sé í gildi á Þjónustugátt Umhverfisstofnunar og sé það ekki í gildi er hægt að endurnýja kortið á sama stað.

Veiðimenn eru einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.

Umhverfisstofnun minnir jafnframt á eftirfarandi atriði sem rétt er að hafa í huga á rjúpnaveiðitímabilinu sem og við aðrar veiðar á villtum dýrum: 

Hvar má veiða?
 
Öllum íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum með lögheimili á Íslandi eru dýraveiðar heimilar í þjóðlendum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Aðeins er heimilt að veiða á eignarlöndum með leyfi landeiganda. Rjúpnaveiðar eru almennt ekki leyfðar á eignarlöndum í eigu ríkisins nema það sé sérstaklega auglýst eða gefið leyfi til slíks af umsjónaraðila, umráðanda eða ábúanda hverju sinni. Veiðar eru ekki leyfðar á jörðum í eigu ríkisins sem eru án umráðanda og eru í umsjá Ríkiseigna. 

Óheimilt er að veiða á þeim hluta Suðvesturlands sem birtist á mynd hér að neðan. Svæðið markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.

Má veiða á friðlýstum svæðum? 
Það er misjafnt eftir svæðum hvort friðlýsing hafi áhrif á það hvort leyfilegt sé að veiða á svæðinu eða ekki. 
Í sumum friðlýsingarskilmálum eru allar fuglaveiðar bannaðar eða meðferð skotvopna bönnuð, líkt og í friðlandinu í Svarfaðardal, Spákonufellshöfða og víðar. Í öðrum friðlýsingarskilmálum eru sérstakar reglur fyrir sérstakar tegundir, t.d. í fólkvangnum Glerárdal þar sem meðferð skotvopna er bönnuð innan fólkvangsins að því undanskildu að heimilt er að veiða rjúpu í samræmi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. 

Veiðimenn eru því hvattir til að kynna sér þær reglur sem gilda um friðlýst svæði í grennd við fyrirhugaða veiðislóð áður en haldið er til veiða. Alla friðlýsingarskilmála og aðrar reglur má nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar. 

Veiðiaðferðir
Við veiðar á fuglum má eingöngu nota skotvopn sem skjóta má úr fríhendis frá öxl. Við veiðar er óheimilt að nota handhlaðnar fjölskotabyssur og hálfsjálfvirk skotvopn með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Pinni á alltaf að vera í við veiðar, hafi pinni verið tekinn úr skotvopni til að koma fleiri en tveimur skotum í skothylkjahólf telst skotvopnið ólöglegt við veiðar. Einnig er notkun sjálfvirkra skotvopna óheimil.

Vélknúin farartæki
Óheimilt er að nota vélknúin farartæki við veiðar. Einungis er heimilt að nota vélknúin farartæki, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki til þess að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum og merktum vegslóðum. Þannig er notkun fjórhjóla og vélsleða við rjúpnaveiðar bönnuð. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur og nær vélknúnu farartæki en 250 m. 


Sölubann
Sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum er enn í gildi. Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir, en með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Sölubannið nær ekki til innfluttra rjúpna og rjúpnaafurða en innflytjanda og seljanda innfluttra ber að tryggja að innfluttar rjúpur og rjúpnaafurðir séu þannig merktar við innflutning og sölu að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar. Við hvetjum almenning til að benda Umhverfisstofnun eða lögreglu á ef fólk verður vart við sölu á rjúpum eða rjúpnaafurðum.