Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gert úttekt á Gróttu í Seltjarnarnesbæ. Umrætt svæði er skilgreint sem friðland skv. auglýsingu nr. 13/1984. Samkvæmt auglýsingunni er umferð óviðkomandi fólks bönnuð á tímabilinu 1. maí til 15. júlí. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að framlengja lokunina þar sem hætta er á verulegri röskun á fuglalífi ef svæðið verður opnað á þeim tíma sem tilgreindur er í auglýsingunni, enda um viðkvæmt tímabil fuglalífs að ræða. Svæðið nálægt Gróttu, sem og Grótta er vinsælt útivistarsvæði og því mikilvægt að bregðast við sem fyrst. Umhverfisstofnun er að undirbúa lokun á svæðinu, til að vernda fuglalífið. Samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 getur Umhverfisstofnun takmarkmarkað umferð eða lokað svæði vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru.

Ákvæðið er svohljóðandi:

  „Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra.“

Áformað er að lokunin á svæðinu taki gildi frá 20. júlí nk. Lagt er til að bæta landvörslu á svæðinu á meðan lokunin stendur yfir til að tryggja að lokunin verði virt. Vinsamlega virðum fuglavarpið á meðan, og forðumst því að fara á Gróttu.

Umhverfisstofnun óskar eftir umsögn og samráði varðandi umrædda lokun. Þar sem um skyndilokun er að ræða óskar stofnunin eftir svari sem fyrst eða eigi síðar en kl. 11:00 mánudaginn 20. júlí nk.

 Ef óskað er frekari upplýsinga vinsamlegast hafið samband við René í síma 822-4076

eða sendið fyrirspurnir á netfangið: rene.biasone@ust.is.