Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Árið 2019 var landvarsla starfrækt á verndarsvæði Breiðafjarðar í fyrsta skipti eftir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið úthlutaði fjármagni sem svaraði til tíu vikna landvörslu á svæðinu.

Breiðafjarðarnefnd og Umhverfisstofnun unnu saman að undirbúningi verkefnisins en framkvæmdin var í höndum Umhverfisstofnunar. Landvörður var við störf haustið 2019 og kannaði svæðið með tilliti til álags af gestakomum ásamt því að meta ástand nokkurra svæða innan verndarsvæðisins og í nágrenni þess.

Í  nýrri skýrslu má m.a. finna úttekt á helstu áfanga- og áningastöðum við Breiðafjörð, umferðartölur, upplýsingar um ferðaþjónustu, umgengni og ferðahegðun gesta ásamt fleira efni. Markaðssetning ferðamanna sjálfra á áfangastöðum á Google Maps og samfélagsmiðlum var skoðuð sérstaklega og eru sterkar vísbendingar uppi um að gestir sæki mjög í fjörur og sjávarsýn en séu ekki alltaf meðvitaðir um hvar best er að komast að sjó.

Strandlengja Breiðafjarðar er um fjórðungur af strandlengju Íslands enda eru eyjarnar margar og ströndin vogskorin. Lífríkið er fjölbreytt og svæðið er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Mikilvægt er að árviss landvarsla við Breiðafjörð verði tryggð sem fyrst, ekki síst við svæði þar sem gestakomur eru tíðar, innviði skortir og upplýsingagjöf er lítil.