Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið fyrri hluta eftirlitsverkefnis um sæfivörur á markaði þar sem farið var í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja slíkar vörur hér á landi. Markmiðið var að skoða hvort sæfivörur uppfylltu skilyrði um markaðsleyfi og hvort merkingar þeirra væru í samræmi við gildandi reglur. Áætlað er að seinni hluti verkefnisins fari fram á þessu ári.

Sæfivörur er stór hópur efnavara, sem skiptist í fjóra aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur. Þessir aðalflokkar skiptast síðan í 22 vöruflokka og var lögð sérstök áhersla á fjóra þeirra í þessu verkefni, þ.e. viðarvarnarefni; gróðurhindrandi vörur; nagdýraeitur og skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum.

Tíðni frávika 65%

Farið var í eftirlit hjá sex fyrirtækjum og skoðaðar alls 63 sæfivörur, sem féllu undir umfang verkefnisins. Eitt eða fleiri frávik fundust við 41 vöru, sem þýðir að tíðni frávika er 65%. Fjórar vörur uppfylltu ekki skilyrði um markaðsleyfi. Þar af er beðið staðfestingar hvort sótt hafi verið um markaðsleyfi í einu tilviki, önnur vara var tekin úr sölu að frumkvæði birgis og hefur hann sent Umhverfisstofnun staðfestingu á förgun hennar. Markaðssetning hinna tveggja varanna var stöðvuð tímabundið og fyrirtækjunum veittur frestur til að sækja um markaðsleyfi fyrir þeim. Þar sem ekki var sótt um markaðsleyfi innan tiltekins frests hefur stofnunin áformað að stöðva markaðssetningu þeirra varanlega.

Frávik vegna ófullnægjandi merkinga fundust á 40 vörum, sem skiptust þannig að 4 vörur með markaðsleyfi uppfylltu ekki kröfur um merkingu skv. reglugerð nr. 528/2012 um sæfivörur og 36 vörur sem bjóða má fram á markaði án markaðsleyfis uppfylltu ekki kröfur um merkingar skv. reglugerð nr. 415/2014 (CLP). Veitti stofnunin eftirlitsþegum tiltekinn frest til að bregðast við framkomnum frávikum og er ennþá unnið að eftirfylgni í nokkrum málum.

Sjá nánar hér. https://ust.is/atvinnulif/efni/eftirlit/eftirlitsverkefni/2018/