Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið eftirlitsverkefninu Plöntuverndarvörur á markaði 2018 þar sem farið var í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja slíkar vörur hér á landi. Markmiðið var að athuga hvort plöntuverndarvörur í sölu væru með leyfi til að vera á markaði og hvort merkingar á þeim væru í samræmi við gildandi reglur.

Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum. Notkun þessara vara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið. Merkingar á umbúðum varanna eru því mikilvægar fyrir notendur, almenning og fagaðila, til að þeir séu upplýstir um innihald vörunnar, notkunarleiðbeiningar og varúðarráðstafanir sem ber að viðhafa við notkun þeirra.

Farið var í eftirlit hjá þremur fyrirtækjum og fundust alls 62 plöntuverndarvörur sem féllu undir umfang eftirlitsins sem allar reyndust hafa leyfi til að vera á markaði. Merkingar reyndust ófullnægjandi á 25 vörum eða í 40% tilfella. Veitti stofnunin eftirlitsþegum tiltekinn frest til að bregðast við framkomnum frávikum og hafa þeir brugðist við með fullnægjandi hætti.

Í samskonar eftirliti sem fór fram í lok maí í fyrra reyndist tíðni frávika 14% og er því ljóst að frávikum hefur fjölgað talsvert. Aukin tíðni stafar líklega einkum af því að 1. júní 2017 tóku alfarið gildi ákvæði reglugerðar nr. 415/2015 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, en þau ákvæði höfðu ekki tekið gildi þegar eftirlitið í fyrra fór fram.