Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið og gefið út vöktunaráætlun fyrir Mývatn. Áætlunin byggir á kröfum laga um stjórn vatnamála en markmið laganna er m.a. að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. 

Tilgangur vöktunarinnar í Mývatni er fjölþættur en aðaltilgangurinn er að veita heildarsýn á ástand vatnsins. Um áraraðir hefur ýmiskonar vöktun og rannsóknir farið fram í Mývatni en sýnt þykir að  vatnið hefur verið undir álagi undanfarin ár. Mývatn og nágrenni þess er ekki eingöngu ómetanleg náttúruperla þegar kemur að lífríki heldur hefur fegurð svæðisins haft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en áætlað er að um hálf milljón manna hafi heimsótt Mývatn árið 2017.

Þeir þættir sem vöktunin beinist einkum að eru næringarefni, svifþörungar, vatnaplöntur, fiskar, staða vatnsborðs og ýmis konar efnamælingar. Niðurstöðurnar verða notaðar til að meta vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand Mývatns. Þær niðurstöður gætu svo leitt til ákveðinna aðgerða sem settar yrðu fram í aðgerðaáætlun og ráðast þyrfti í til að bæta ástand vatnsins. Vöktunaráætlunin er unnin í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem jafnframt framkvæmir vöktunina samkvæmt áætluninni.

Vöktunaráætlunin gildir til ársins 2023. 

Tengd Skjöl