Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun tekur virkan þátt í norrænu samstarfi í efnamálum. Nýverið lauk sameiginlegu eftirlitsverkefni þar sem skoðað var hvort merkingar á hættulegum efnavörum á byggingavörumarkaði uppfylltu kröfur í sameiginlegri löggjöf landanna. Hluti verkefnisins beindist að öryggisblöðum, en þau innihalda upplýsingar um örugga meðhöndlun og notkun hættulegra efna og eru mikilvægur þáttur í vinnuvernd fyrir þá sem vinna með slík efni.

Byggingavöruverslanirnar Bauhaus, Byko, Húsasmiðjan og Múrbúðin féllu undir umfang eftirlitsins hér á landi. Í úrtaki voru 5 vörur í hverri verslun, eða 20 vörur alls. Skoðaðar voru vörur úr einhverjum af eftirfarandi vöruflokkum: málning, lím, lökk, grunnur, sement, viðarvarnarefni, þéttiefni, kítti, fylliefni, smurefni, epoxývörur. Eftirlitsferðir fóru fram í janúar 2017.

Eins og sjá má á kökuritinu sem fylgir fréttinni reyndust 8 vörur (40%) vera án frávika, en 12 vörur (60%) með eitt eða fleiri frávik frá reglum. Skipting frávika var þannig að á fimm vörur vantaði alfarið íslenskar merkingar, merkingar á fimm vörum þörfnuðust uppfærslu að nýjum reglum, í einu tilfelli uppfylltu merkingar ekki skilyrði um lágmarksstærð hættumerkis og á eina vöru vantaði viðeigandi hættusetningar. Í kjölfar eftirlitsins gerði Umhverfisstofnun kröfur um úrbætur á ofangreindum frávikum og brugðust allir eftirlitsþegar við þeim á fullnægjandi hátt.

Skoðaðar voru 105 vörur í norræna verkefninu í heild og reyndust 48 af þeim, eða 46%, vera með eitt eða fleiri frávik frá reglum um merkingar. Algengasta frávikið fólst í því að hættusetningar voru rangar miðað við flokkunina á vörunni, en önnur frávik lutu að álímingu merkimiða, vörukenni, viðbótarupplýsingum um hættu og viðvörunarorðum. Séu niðurstöðurnar fyrir Ísland bornar saman við útkomuna úr verkefninu í heild kemur í ljós að hér er tíðni frávika hærri en á hinum Norðurlöndunum, eða 60% samanborið við 42%. Stafar þetta meðal annars af því hve algengt það er hér á landi að merkingar séu ekki á íslensku, eins og áskilið er, en auk þess erum við eftirbátar hinna landanna hvaða varðar að uppfæra merkingar að nýjustu reglum.

Niðurstöður verkefnisins benda til að Umhverfisstofnun þurfi áfram að fylgja því fast eftir með kynningu og eftirliti, að merkingar á hættulegum efnavörum séu í samræmi við kröfur þar um.

Samantekt Umhverfisstofnunar um verkefnið.

Sameiginleg skýrsla norræna hópsins.