Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í nóvember 2017 ákvað Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að endurnýja samþykki fyrir virka efninu glýfosati til notkunar í plöntuverndavörum í fimm ár eða til loka árs 2022, eftir atkvæðagreiðslu hjá aðildarríkjum ESB þar sem meirihluti ríkjanna var fylgjandi því að framlengja leyfið. Hefur nú verið gefin út reglugerð þess efnis í Evrópusambandinu. Þetta þýðir að heimilt verður að veita plöntuverndarvörum, sem innihalda glýfosat, markaðsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu allt til 15. desember 2023.

Til plöntuverndarvara teljast illgresis- , skordýra-, og sveppaeyðar ásamt stýriefnum og hefur virka efnið glýfosat verið notað í illgresiseyða. Fjölmargir illgresiseyðar sem innhalda glýfosat eru á markaði í heiminum og eru þetta langmest seldu plöntuverndarvörurnar í dag, en þekktasta vöruheitið á þessum vörum er sennilega Roundup. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar nemur notkun illgresiseyða sem innhalda glýfosat um  30 % af allri notkun plöntuverndarvara hér á landi.

Áhöld hafa verið um hvort efnið glýfosat geti talist skaðlegt mönnum og hvort það  geti mögulega verið krabbameinsvaldandi, en því hefur verið haldið fram m.a. af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO). Áhættumat fyrir glýfosat var lagt fyrir Framkvæmdastjórn ESB. Niðurstaðan var að ekki væri hægt að sýna fram á með fyrirliggjandi gögnum að glýfosat sé krabbameinsvaldandi. Bæði Evrópska matvælaöryggisstofnunin (EFSA) og Efnastofnun Evrópu (ECHA) hafa gefið út sérstök álit sem staðfesta þetta.

Hvaða áhrif hefur þetta fyrir Ísland?

Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt Noregi og Lichtenstein, og ber samkvæmt honum að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins um plöntuverndarvörur sem þýðir að sömu reglur gilda hér á landi eins og í löndum EES hvað þetta varðar.

Nú eru sex plöntuverndarvörur, sem innihalda glýfosat, með tímabundna skráningu hér á landi og allar með gildistíma til 31. desember 2018. Eftir að þessar tímabundnu skráningar renna út er gefinn frestur í 6 mánuði til að selja fyrirliggjandi birgðir af vörunum sem um ræðir, eða til 30. júní 2019. Algert notkunarbann tekur svo gildi 12 mánuðum síðar, eða 30. júní 2020. Ef markaðsetja á plöntuverndarvörur sem innihalda glýfosat eftir 30. júní 2019 þarf að vera búið að veita þeim markaðsleyfi hér á landi og þau má veita allt til 15. desember 2023, eða einu ári lengur en samþykkið fyrir virka efninu.

Listi yfir plöntuverndarvörur með tímabundna skráningu