Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Síðastliðið haust lét Umhverfisstofnun endurtaka könnun á viðhorfi Íslendinga til matarsóunar. Könnunin var framkvæmd af Maskínu ehf.  Áður var hún framkvæmd haustið 2015. Könnunin var lögð fyrir hóp fólks með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Svarendur voru af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu. Fimm spurningar voru endurteknar úr fyrri könnun og einni spurningu bætt við.

Spurt var hve mikið fólk reyni að lágmarka magn matar og drykkjar sem hent er á heimilinu. Niðurstöður sýna að meirihluti fólks reynir að lágmarka matar- og drykkjarsóun eða um 75%. Samanburður við niðurstöður frá 2015 sýnir að staðan hefur lítið breyst og því eru enn einhverjar eftirlegukindur í þessum efnum. 

Til að meta hversu miklu fólk hendir þá var spurt hversu oft fólk hendi matvælum eða drykkjum. Algengast er að fólk hendi einhverju 1 – 4 sinnum á viku. Líkt og í fyrri spurningu, þá eru niðurstöður mjög svipaðar á milli kannananna og enn rúm til bætingar. Athyglisvert var að almennt var sóun minnst hjá þeim sem voru yfir 60 ára og talsvert meiri hjá 18-29 ára aldurshópnum. Einnig var tíðast sóað hjá fólki með hæstar fjölskyldutekjur, eða 1.200 þúsund eða hærra á mánuði.

 

 

 

Helstu ástæður matarsóunar hjá Íslendingum voru rýndar. Algengasta ástæðan var að maturinn væri útrunninn (67,3%). Næstalgengasta ástæða matarsóunar er skemmdur matur eða gæði matar ónóg (56,3%). Of mikill matur gerður/of stór skammtur er þriðja veigamesta ástæðan (42,4%).  Matarsóun má stundum rekja til misskilnings á geymsluþolsmerkingum, en best fyrir gefur til kynna lágmarksgeymsluþol matvæla en síðasti notkunardagur varðar matvælaöryggi. Þetta eru einmitt skilaboð fræðsluherferðar stofnunarinnar Notaðu nefið þar sem áhersla er lögð á að nota skynfærin á matvæli merkt best fyrir. Niðurstöður sýndu að yngsti aldurshópurinn (18-29 ára) sóaði mun meira af útrunnum mat en elsti aldurshópurinn (60 ára og eldri).

 

Metið var hvaða hindranir stæðu helst í vegi fyrir fólki að minnka matarsóun á heimilinu. Algengast var að fólki fyndist erfitt að áætla rétt hversu mikið þyrfti að kaupa eða elda sem rímar við þriðju algengustu ástæðu sóunar að ofan; of mikill matur gerður. Önnur algengasta ástæðan var að fólk myndi ekki hvað það ætti heima þegar það færi út í búð og gleymdi að ljúka afgöngum. Báðar þessar hindranir má tækla með betri skipulagningu við innkaup ásamt því að nota svokallaða skammtareiknivél sem finnst á fræðsluvefnum matarsóun.is

 

 

Einnig var spurt hvað hvetti fólk til að minnka magn þess sem fer til spillis. Þar stóð hæst að fólk væri mótfallið hvers kyns sóun, fengi samviskubit þegar það henti mat og kysi að verslanir myndu selja með afslætti matvöru og drykki sem væri að renna út. Athygli vekur að vægi peningasparnaðar vegna minni sóunar þyki samkvæmt svörum könnunarinnar minni hvatning en t.d. umhverfisáhrif.

 

Að lokum var spurt hvort fólk teldi umræðu um matarsóun hafa aukist eða minnkað á undanförnum mánuðum. Ingunn Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að samkvæmt svörum könnunarinnar telji yfirgnæfandi meirihluti umræðu um matarsóun hafa aukist (82%) sem sé mjög jákvætt.

„Vonandi skilar þessi aukna umræða sér í breyttum venjum fólks og upplýstari einstaklingum,“ segir Ingunn.“