Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt


Vera kann að umferð bíla verði skert tímabundið með valdboði ef slök loftgæði vegna manngerðar mengunar kalla á slík úrræði. Þetta kom fram í samtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun við Kristínu Lindu Árnadóttur forstjóra Umhverfisstofnunar vegna nýrrar loftgæðaáætlunar, aðgerðaráætlunar og nýrra markmiða í loftslagsmálum. Úrræði um takmörkun bílaumferðar hefur verið sett fram sem aðgerðartillaga fyrir viðbragðsáætlanir heilbrigðisnefnda sveitarfélaga ef svifryksmengun fer upp úr öllu valdi.

Einnig var á Morgunvaktinni rætt við Ragnhildi Finnbjörnsdóttur sérfræðing og doktor hjá Umhverfisstofnun. Hún sagði að Íslendingar yrðu að gera betur í loftgæðamálum, en hjá sumum væri þó vistvæn vakning í gangi, fólk tæki bíla saman í vinnuna og ferðaðist í strætó af umhverfisástæðum.

Í aðgerðaáætluninni er m.a. komið inn á mikilvægi þess að rykbinda götur oftar, auka upplýsingaflæði og spá fyrir um loftgæði í landinu tvo daga fram í tímann. Þá er lagt til að auknar álögur verði settar á díselbíla umfram bensínbíla. Díselbílar losa meira af svifryki og köfnunarefnisoxíði en bensínbílar en slík mengun er verri fyrir loftgæði í nærumhverfi.

Fram kom að bílar sem ganga fyrir vistvænni orku ættu ekki að vera framtíðarmúsík heldur mikilvægt skref í nútímanum.