Stök frétt

Creditinfo hefur tekið saman umfang fréttaumfjöllunar um Umhverfisstofnun fyrstu sex mánuði ársins. Aldrei í sögu Umhverfisstofnunar hefur fréttaumfjöllun  verið meiri. 1116 fréttir voru birtar um Umhverfisstofnun fyrstu sex mánuði ársins 2017 samanborið við 440 fréttir fyrstu sex mánuði ársins 2016. Aukningin milli tímabila frá ári til árs er ríflega 250%. Alls voru 995 fréttir birtar árið 2016 þar sem nafn Umhverfisstofnunar kom fyrir. Fyrsta hálfa árið 2017 voru því sagðar fleiri fréttir sem tengdust Umhverfisstofnun en allt árið í fyrra.

Útvarps- og sjónvarpsfréttum um Umhverfisstofnun hefur fjölgað tæplega þrefalt milli ára. Sömu sögu er að segja um fréttir á netmiðlum. Af vefmiðum flytur Ríkisútvarpið eða ruv.is nálega þriðju hverja frétt sem tengist Umhverfisstofnun. Af blöðum flytur Morgunblaðið flestar fréttir þar sem nafn Umhverfisstofnunar kemur fyrir. Umhverfisstofnun var í 65. sæti yfir fyrirtæki í fréttum ársins 2016 en skipar 33. sætið fyrstu sex mánuði þessa árs, hækkar um 32 sæti.

Ef samanburður við aðrar stofnanir eða fyrirtæki sem Creditinfo metur sem samanburðarhæfa starfsemi er skoðaður, var velferðarráðuneytið eina stofnunin/fyrirtækið sem var oftar til umfjöllunar í fréttum fyrstu sex mánuði ársins.

“Þessi stóraukning fréttaumfjöllunar um Umhverfisstofnun styður þá tilfinningu sem við höfum haft að verkefni Umhverfisstofnunar hafa aldrei verið umfangsmeiri. Enda er mikið álag á starfsfólk okkar sem fæst við verkefni sem hafa mikið gildi fyrir samfélagið og rata fyrir vikið oft í fréttir,” segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Mynd: Creditinfo