Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 29. júlí 2015 starfshóp um málefni Friðlands að Fjallabaki. Markmið með skipun starfshópsins er að styrkja stöðu svæðisins, leita leiða til að efla rekstur þess og kanna hvort tækifæri séu til að stækka svæðið.

Friðland að Fjallabaki var stofnað árið 1979, til verndar einhverra mikilvægustu náttúruminja landsins. Svæðið er afar vinsæll áningastaður ferðamanna og hefur verið bent á mikilvægi þess að búa svæðið betur undir komu ferðamanna bæði hvað varðar uppbyggingu innviða og stjórnun.

Ráðuneytið telur rétt að endurskoða mörk svæðisins og friðlýsingaskilmála og telur í því sambandi rétt að hafa m.a. í huga verndarflokk rammaáætlunar, náttúruminjaskrá, framtíðaruppbyggingu Laugavegarins svo og skilvirka stjórnun og rekstur. Þá ber að hafa í huga að Torfajökulssvæðið hefur verið sett á tillögulista ríkisstjórnarinnar um svæði á heimsminjaskrá UNESCO. Ráðuneytið leggur áherslu á að starfshópurinn hafi samráð við hlutaðeigandi aðila sem tengjast verkefnum starfshópsins.

Starfshópurinn hefur óskað eftir tillögum og ábendingum aðila sem starfa innan friðlandsins eða að verkefnum sem varða málefni þess. Ennfremur eru tillögur og ábendingar frá öðrum hagsmunaðilum og almenningi vel þegnar. Starfshópunum ber að skila skýrslu til ráðherra fyrir janúarlok.

Starfshópurinn er þannig skipaður:
  • Sigrún Ágústsdóttir, formaður, Umhverfisstofnun
  • Guðríður Þorvarðardóttir, sérfræðingur, Umhverfis- oog auðlindaráðuneyti
  • Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþingi eystra
  • Þorgils Torfi Jónsson, oddviti Rangárþings ytra
  • Lovísa Ásbjörnsdóttir, jarðfræðingur, Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Stefán Thors, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Ábendingum og tillögum má koma á framfæri á ust@ust.is