Stök frétt

Plast leikur stórt hlutverk í daglegu lífi okkar og mun gera það um fyrirsjáanlega framtíð. Vitað er að plastúrgangur í hafinu hefur neikvæð áhrif á auðlindir hafsins og á sjávarútveg, svo og á nýtingu strandsvæða fyrir almenning og ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að draga úr þessum áhrifum. 

Þann 24. September síðastliðinn héldu Umhverfisstofnun og Norræna ráðherranefndin í samstarfi við við aðrar stofnanir og fyrirtæki alþjóðlega ráðstefnu um plastmengun í hafinu. Ráðstefnan sem fór fram í Hörpu var vel sótt og þar var vandinn kortlagður og leiðir til úrbóta ræddar. Helstu sérfræðingar heims á þessu sviði tóku þar til máls auk fulltrúa almennings, framleiðenda og stórnotenda. Framsögurnar voru teknar upp á myndband og birtast hér í heild sinni en stök erindi munu næstu daga birtast hér og á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar.

 

Plastúrgangurinn í hafinu er af ýmsum toga, allt frá míkróplasti sem hefur m.a. verið notað í auknum mæli í snyrtivörur á allra síðustu árum, upp í stóra plasthluti og drauganet. Plast sem velk¬ist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna. Útgerðir verða fyrir miklu tjóni vegna plasts sem flækist í veiðar¬færi, skrúfur, vatnsinntök o.fl. Því er mikilvægt að auka meðvitund fólks um málefnið og grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastúrgangi og áhrifum hans í sjónum.