Stök frétt

Efnastofnun Evrópu hefur það að markmiði að heimsækja reglulega öll þau aðildarríki sem innleitt hafa REACH reglugerðina. Þetta er gert til að stuðla að góðum samskiptum á milli stofnunarinnar og aðildarríkja og veita stuðning. Þann 5. september s.l. kom Maria O‘Shea frá HelpNet deild Efnastofnunar Evrópu í heimsókn til Umhverfisstofnunar og var af því tilefni blásið til upplýsingafundar um skyldur þeirra sem markaðssetja efni, efnablöndur og hluti sem innihalda efni. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og mættu hátt 60 manns í húsakynni SI. 

Áður en Maria O‘Shea steig í pontu hélt Bryndís Skúladóttir frá SI erindi um mikilvægi þess að vita hvað maður er með í höndunum þegar efnavörur eru annars vegar og Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir frá Umhverfisstofnun fjallaði um ný íslensk efnalög og hvað skal hafa í huga þegar markaðssetja á efni, efnablöndur og hluti sem innihalda efni. 

Eftir fundinn heimsótti Maria O‘Shea Umhverfisstofnun, fræddist um skipulag efnamála hér á landi og heilsaði upp á efnateymið. Heimsóknin tókst í alla staði mjög vel.

Myndir

Maria O´Shea frá Efnastofnun Evrópu í pontu. Af upplýsingafundi um skyldur þeirra sem markaðssetja efni, efnablöndur og hluti sem innihalda efni