REACH

  Efnaframleiðsla í heiminum hefur vaxið úr um 1 milljón tonna árið 1930 í ríflega 400 milljón tonn á ári og fer enn vaxandi. Afleiðingin er sú að allt í kringum okkur má finna má margvísleg efni og efnasambönd eins og t.d. í þvottaefnum, byggingarvörum, fatnaði, leikföngum og húsgögnum. Mörg þessara efna finnast einnig í lofti, vatni, jarðvegi og jafnvel mönnum og dýrum þar sem þau hafa safnast fyrir í gegnum árin. Efni geta haft hættulega eiginleika, verið ertandi, ætandi og jafnvel eitruð og hefur verið sýnt fram á tengsl ýmissa efna við ákveðna sjúkdóma.

  Aukin þekking á áhrifum efna á markaði er nauðsynleg til að vernda heilsu okkar og umhverfi og þannig upplýsingar ættu að vera öllum aðgengilegar. Til að bæta úr þessu hefur ný reglugerð verið innleidd á evrópska efnahagssvæðinu sem kallast REACH. Reglugerðin tók gildi á Íslandi í júní 2008.

  REACH hefur það meginmarkmið að vernda heilsu manna og umhverfi, annar vegar og hins vegar að liðka fyrir samkeppni í efnaiðnaði og efla þróun nýrra efna á evrópska efnahagssvæðinu (EES). Reglugerðin umbyltir efnavörumarkaði í Evrópu því við innleiðingu hennar flyst ábyrgð á áhættumati efna frá yfirvöldum yfir á framleiðendur og innflytjendur.

  Efnastofnun Evrópu í Helsinki sér um verklega framkvæmd reglugerðarinnar, þ.á.m. móttöku skráningargagna, mat á tillögum um prófanir á efnum og hvort skráningargögn séu fullnægjandi. Hún sér einnig um framkvæmd leyfisveitinga, fræðslu og leiðbeiningar fyrir iðnaðinn og yfirvöld. Stofnanir í hverju Evrópulandi fyrir sig hafa það hlutverk að miðla upplýsingum frá Efnastofnuninni heima fyrir, aðstoða við skráningu og hafa eftirlit með því að farið sé eftir reglugerðinni. Umhverfisstofnun sinnir þessu verkefni á Íslandi.

  Þessi upplýsingasíða er gerð með það að markmiði að fyrirtæki á Íslandi geti á sem einfaldastan hátt áttað sig á hlutverkum sínum og skyldum vegna REACH. Á hlekkjunum hér til vinstri er hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um REACH. Spurningum sem vakna og ekki er svarað á þessari upplýsingasíðu má beina til Umhverfisstofnunar í gegnum tölvupóst (ust@ust.is) eða síma (5912000).

  REACH reglugerðin leysir af hólmi um 40 reglugerðir og tilskipanir hjá Evrópusambandinu og þannig fæst eitt markvisst eftirlitskerfi fyrir efni og efnavörur. Gamla löggjöfin þótti ekki hafa gefið nógu góða raun við að tryggja öryggi almennings og umhverfis. Hún skiptist í meginatriðum í reglur um skráð efni, sem voru á markaði fyrir árið 1981, og reglur um ný efni, sem sett höfðu verið á markað frá þeim tíma. Strangar kröfur voru gerðar til áhættumats á nýjum efnum áður en þau fengu markaðsleyfi en engar slíkar kröfur voru gerðar til skráðra efna. Árið 1981 voru yfir 100.000 efni á markaði og rúmlega 4000 ný efni hafa komið á markað síðan þá.

  REACH reglugerðin umbyltir efnavörumarkaði í Evrópu því nú er það framleiðandans að sýna fram á að varan hans sé örugg áður en hún er sett á markað. Yfirvöld hafa hingað til borið ábyrgð á að skráð efni séu metin með tilliti til áhættu en við innleiðingu REACH flyst ábyrgð á áhættumati efna yfir á framleiðendur þeirra sem og innflytjendur efna og efnavara sem flytja inn frá löndum utan EES. Þannig verða kröfur til nýrra og skráðra efna sambærilegar.

  Samkvæmt REACH þurfa framleiðendur og innflytjendur að veita upplýsingar um eiginleika efna sinna, notkunarsvið, váhrif og hvernig nota megi þau á sem öruggastan hátt. Eftirnotendur (þeir sem nota efni og efnavörur í atvinnuskyni) þurfa að meta hvort þeir séu að nota efnin á viðurkenndan hátt, hvort framleiðsla þeirra sé örugg og að notkun valdi sem minnstum skaða á heilsu manna og umhverfi.

  R – Skráningarskylda (Registration) iðnaðarins á efnum sem flutt eru inn eða framleidd í meira magni en 1 tonn á ári. Framleiðendur og innflytjendur efna skulu skrá þau hjá Efnastofnun Evrópu. Skráning fer fram á 11 ára tímabili og fer lokadagur skráningar eftir tegund efnis og magni. Með skráningunni skal gefa upplýsingar um áhrif efnis á umhverfi og heilsu manna og hvernig megi nota það á öruggan hátt.

  E – Mat (Evaluation). Umhverfisstofnun og Efnastofnun Evrópu leggja mat á þörf fyrir nýjar prófanir á efninu. Sum efni eru tekin og metin sérstaklega og er val á þeim byggt á áhættumati þeirra. Niðurstöður mats geta gefið tilefni til að efnið verði leyfisskylt eða bannað.

  A – Leyfisveiting efna (Authorisation). Notkun og markaðssetning efna sem geta haft í för með sér óæskilega hættu verður háð leyfum. Skaðsemi hvers efnis verður skoðuð og verður aðeins veitt leyfi ef tiltekin skilyrði verða uppfyllt eins og að efnið berist ekki út í umhverfið í of miklum mæli eða að engin hættuminni efni geti komið í staðinn.

  CH – Efni (chemicals).

  Það er skylda framleiðenda og innflytjenda efna að bera sig eftir upplýsingum um REACH reglugerðina til að finna út hvort starfsemi þeirra heyri undir REACH. Hér verður gerð grein fyrir nokkrum af mikilvægustu atriðum reglugerðarinnar.
  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.