Stofnunin hefur haft samband við Heilbrigðisnefnd Vesturlands og hafnarstjóra vegna þessa.
Starfsmaður Umhverfisstofnunar er kominn á strandstað og hefur skoðað aðstæður. Skipið situr nú á þurru og er ekki kominn leki að því, enga brák að sjá við skipið. Verið er að meta næstu skref og skipuleggja viðbrögð ef þörf er á.
Uppfært kl. 22:40
Þórsnes II er nú laust af strandstað við Skoreyjar. Vel gekk að draga skipið á flot, engin ummerki voru um að gat hefði komið á olíutanka og ekki gætti olíusmits frá skipinu. Í því skyni að geta brugðist við ef þörf krefði hafði Umhverfisstofnun reiðubúna olíuvarnargirðingu og búnað til að hreinsa olíu en ekki reyndist þörf á að nota búnaðinn. Aðgerðum Umhverfisstofnunar á vettvangi er því lokið.
Grundvallaratriði í viðbrögðum við olíumengun á sjó (og vatni) er að olía flýtur á vatni og rekur undan straumi og vindum. Þá er rétt að hafa ofarlega í huga að léttari olíur (einkum bensín, dísel og aðrar gasolíur) gufa upp og blandast í vatnsbolinn. Viðbrögðum skal hagað í samræmi við það og með öryggi starfsfólks og annarra í nágrenninu í huga.
Olíuflekkur á sjó er fljótur að breytast og dreifist hratt bæði fyrir áhrif vinds og strauma. En það er fleira sem hefur áhrif á olíuna. Á myndinni hér að neðan má sjá hvað verður um olíu á sjó, og er þá ekki meðtalin sú olía sem berst á land eða smyrst á fugla og aðrar lífverur í sjó.
Myndin sýnir hversu lengi mismunandi olíur eru að eyðast í sjó, Group eru bensín og þvílík efni, Group 2 eru gasolíur og þvílík efni, group 3 eru þunnar svartolíur og þvílík efni og group 4 eru þykkustu svartolíurnar.
Myndin af ofan er skjáskot úr vákorti af svæðinu í kringum Skoreyjar. Kortið sýnir m.a. leirur (gulmerktar) og dýralíf (punktar og grænt svæði). Skoða má vákortið á nasarm.is en það geymir upplýsingar fyrir hafsvæðið í Norður-Atlantshafi.