Stök frétt

Höfundur myndar: Árni Geirsson

Umhverfisstofnun og bæjarstjórn Garðabæjar auglýsa hér til kynningar tillögur að friðlýsingu tveggja svæða innan marka Garðabæjar. Svæðin eru í eigu Garðabæjar utan Vífilsstaðahrauns sem er í eigu ríkisins, og er samanlögð stærð þeirra 479,3 hektarar.

Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár

Lagt er til að eldstöðin Búrfell, hrauntröð hennar Búrfellsgjá, eystri hluti Selgjár ásamt nánasta umhverfi verði friðað sem náttúruvætti skv. 2. tölulið 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Svæðið er alls 323 hektarar.

Verndargildi svæðisins byggir fyrst og fremst á jarðmyndunum frá nútíma sem hafa hátt vísinda- , fræðslu- og útivistargildi, auk gróðurfars.  Innan svæðisins eru einnig fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Menningarminjar þessar voru friðlýstar samkvæmt Þjóðminjalögum  árið 1964. Búrfell og nærliggjandi svæði eru enda nærri þéttbýli og þannig kjörin til umhverfisfræðslu og útivistar.

Garðahraun neðra, Garðahraun efra, Vífilstaðahraun og Maríuhellar

Lagt er til að fjögur svæði; Garðahraun neðra (vestan  Ásahverfis), Garðahraun efra (sunnan Flatahverfis), Vífilsstaðahraun og Maríuhellar, verði friðlýst sem fólkvangur skv. 55. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Alls 156,3 hektarar.

Markmiðið friðlýsingarinnar er stofna fólkvang, útivistarsvæði í þéttbýli, þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, m.a. fornar rústir eru verndaðar. Með friðlýsingunni er verið að efla lífsgæði í sveitarfélaginu með því að tryggja möguleika til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi.

Hér að neðan má skoða friðlýsingarskilmála svæðanna tveggja sem og uppdrætti sem sýna afmörkun þeirra.

Frestur til þess að skila inn athugasemdum og/eða ábendingum rennur út mánudaginn 12. nóvember 2012.

Friðlýsingarskilmálar

Kort

Myndir