Stök frétt

Höfundur myndar: Bergþóra Kristjánsdóttir

Þriðjudaginn 28.  febrúar undirritaði Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, friðlýsingu Seljahjallagils, Bláhvamms, Þrengslaborga og nágrennis við hátíðlega athöfn í Mývatnsstofu. Svæðið var friðlýst sem náttúruvætti, en það er í landi jarðarinnar Grænavatns og er 1889,7 hektarar að stærð. Þetta er þriðja náttúruperlan í Skútustaðahreppi sem friðlýst er á innan við einu ári, en þann 22. júní sl. staðfesti ráðherra tvær aðrar merkar friðlýsingar, annars vegar Hverfjalls eða Hverfells, og hins vegar Dimmuborga.

Svandís Svavarsdóttir undirritar friðlýsinguSvæðið sem friðlýst var á þriðjudag er ólíkt þeim tveimur sem friðlýst voru í Mývatnssveit í fyrra að því leyti að Seljahjallagil og nágrenni er enn sem komið er tiltölulega óspjallað svæði. Markmið friðlýsingarinnar er einmitt að vernda það í núverandi ástandi, þó þannig að aðgengi ferðamanna verði bætt. Þörf er á aukinni fræðslu um hina merku jarðfræðilegu sögu svæðisins en þar er að finna minjar frá jarðeldunum sem skópu Mývatn og umgjörð þess. Nyrst í gilinu hefur leysingavatn grafið nýtt gil ofan í hraunið og koma þar fram miklir klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi á austanverðu  Norðurlandi. Í Bláfjalli og Bláfjallsfjallgarði eru fjölbreyttar móbergs- og grágrýtismyndanir frá ísöld með giljum og hvömmum sem grafist hafa út við lok ísaldar.

Við athöfnina vakti Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, athygli á því að friðlýsingar mikilvægra náttúrusvæða gerast ekki af sjálfu sér. Á bak við þá liggur mikil vinna, ekki síst framlag og framsýni þeirra sem landið eiga og eru þeirrar skoðunar að friðlýsing geti verið gæfuspor fyrir framtíð þess. Því þakkaði hún sérstaklega eigendum jarðarinnar Grænavatns, þeim Hjörleifi Sigurðarsyni, Haraldi Helgasyni, Freyju Kristínu Leifsdóttur, Sigrúnu Benediktsdóttur, Hrafnhildi Kristjánsdóttur, sem og Þórhildi heitinni Benediktsdóttur sem gaf samþykki sitt fyrir friðlýsingu landsins skömmu fyrir andlátið.

Einnig færði forstjóri sveitarstjórn Skútustaðahrepps kærar þakkir fyrir samstarfið um friðlýsingarnar sl. misseri.


Hjörleifur Sigurðarson og Kristín Linda Árnadóttir


Hjörleifur Sigurðarson landeigandi sem átti frumkvæði að friðlýsingunni og Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

Séð frá Seljahjallagili

Séð frá Seljahjallagili.