Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í janúar sl. skipaði bæjarstjórn Vesturbyggðar starfshóp um framtíðarskipulag Látrabjargs og nágrennis, en í aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að svæðið verði friðlýst. Í gildandi náttúruverndaráætlun 2009-2013 er einnig gerð tillaga um stofnun þjóðgarðs á svæðinu. Í starfshópnum sitja auk bæjarstjóra fulltrúi landeigenda að Látrum, Gísli Már Gíslason, Keran Stueland Ólason í Breiðavík, sem lýst hefur áhuga á að allt hans land verði friðlýst, Jón Þórðarson, fulltrúi ferðamálasamtaka Vestfjarða og Anna Kristín Ólafsdóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar.  Gert er ráð fyrir að fulltrúar meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar bætist í hópinn nú í haust, sem og fleiri fulltrúar landeigenda að Látrum.
Mikilvægt er að árétta strax í upphafi að undirbúningur mögulegrar friðlýsingar, sem og framkvæmd hennar, ef af verður, eru í eðli sínu samráðsferli þar sem að koma allir þeir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta á svæðinu. Forsenda friðlýsingar er samkomulag við alla rétthafa viðkomandi svæðis, þ.e. sveitarfélag, landeigendur og, eftir atvikum, ábúendur.

Á vormánuðum og í sumar hefur verið unnið að því að kynna hugmyndina og fá fram viðbrögð frá landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Ráðinn var heilsárssérfræðingur á vegum Umhverfisstofnunar, Hákon Ásgeirsson, til að vinna að verkefninu og sinna landvörslu á svæðinu.  Hann mun hafa vetrarsetu á Patreksfirði.

Upphaflega var eingöngu litið til mögulegrar friðlýsingar landsins frá Breiðavík suður í Keflavík.  Þegar á leið kom í ljós að talsvert margir landeigendur utan þess svæðis en innan svæðisins sem tilheyrði gamla Rauðasandshreppi hafa áhuga á að taka þátt í umræðu um mögulega friðlýsingu og jafnvel lýst áhuga á að friðlýsa sitt eigið land sem hluta þjóðgarðs.

Deiliskipulag Látrabjargarsvæðisins

Sveitarfélagið Vesturbyggð óskar eftir tilboðum í gerð deiliskipulags Látrabjargarsvæðisins.

Skipulagsforsögnin er aðgengileg á heimasíðu Vesturbyggðar og hér að neðan. Í tilboði skal m.a. koma fram nöfn þeirra sem vinna munu verkið, menntun þeirra og starfsreynsla, á hvern hátt tilboðsgjafar ráðgera að skila verkefninu, tímagjald þeirra sem að verkefninu munu vinna, heildarkostnaður við verkið og hvenær því verði skilað. Gerð er krafa um að ráðgjafi hafi að lágmarki háskólamenntun í landslagsarkitektúr, arkitektúr eða skipulagsfræðum en geti að auki sýnt fram á reynslu og réttindi til að vinna skipulag skv. 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ráðgjafi skal sýna fram á færni í framsetningu teikninga og myndefnis og hæfileika í mannlegum samskiptum. Umsóknir verða metnar bæði með tilliti til tilboðs en ekki síður með tilliti til hæfis umsækjenda s.s. gæða fyrri verka.

Nánari upplýsingar veitir bæjarstjóri Vesturbyggðar, Ásthildur Sturludóttir, s. 450-2300.

Tengt efni

Heimsókn ráðherra og fundir á svæðinu

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsótti svæðið dagana 26. og 27. september til samráðs og umræðu við landeigendur og annað áhugafólk um framhaldið. Fundirnir voru alls sex: á Hvallátrum, í Breiðavík, að Hnjóti, á Patreksfirði og á Rauðasandi, auk fundar með bæjarstjórn Vesturbyggðar og með fyrrnefndum starfshópi um framtíðarskipulag Látrabjargs og nágrennis. Nánar um fundina á svæðinu.

Landeigendafundir á Umhverfisstofnun

Þann 20 og 24. október voru fundir haldnir á Umhverfisstofnun með umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur og landeigendum á svæinu. Stór hluti landeigenda eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og var tilgangur fundarins sá sami og fundirnir sem haldnir voru fyrir vestan í septemberlok, þ.e. að ræða hvað fælist í stofnun þjóðgarðs fyrir landeigendur, sveitarstjórn og aðra íbúa svæðisins,  hvert markmið friðlýsingarinnar væri, hvaða lagaleg áhrif hún hefði, og hver væri hinn samfélagslegi ávinningur. Nánar um fundina á Umhverfisstofnun.

Ekki hika við að hafa samband ef þú óskar frekari upplýsinga eða vilt koma ábendingum á framfæri með því að smella hér.

Tengd skjöl