Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hvítabjörn var felldur í Rekavík (bak Höfn) á Hornströndum kl. 14.21.

Tilkynning barst Landhelgisgæslunni í morgun um hvítabjörn í Hælavík á Hornströndum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á Ísafjörð þaðan sem flogið var á Hornstrandir í Hælavík. Þegar þangað var komið hafði dýrið fært sig um set og fannst eftir nokkra leit í Rekavík (bak Höfn). Þoka var í efstu brúnum og var mikil yfirferð á dýrinu. Lögreglan á Ísafirði var með í för og mat aðstæður þannig að ómögulegt væri að vakta dýrið allan sólarhringinn á svæðinu og tryggja þannig að það færi ekki í sjó eða flytti sig um set í átt að byggð. Því var tekin ákvörðun um að fella dýrið af öryggisástæðum.

Unnið var í samræmi við viðbragðsáætlun um viðbrögð við landtöku hvítabjarna. Lögreglan á Ísafirði stjórnaði aðgerðum og með í för voru fulltrúar Umhverfisstofnunar, fulltrúi yfirdýralæknis ásamt reynslumiklum skyttum. Ísbjarnarhræið  var flutt með þyrlunni til Ísafjarðar og verður flutt til Reykjavíkur þar sem Náttúrufræðistofnun Íslands mun taka við dýrinu og rannsaka.

Hvítabirnir eru stærstu landrándýr jarðar, stórhættulegir og óútreiknanlegir. Talið er að heimsstofn hvítabjarna telji 22.000 dýr í dag. Flesta hvítabirni er að finna í Kanada. Hvítabirnir eru á lista IUCN (Alþjóðanáttúruverndarsamtökin) yfir dýr í yfirvofandi hættu. Þrátt fyrir þetta styður hvítabjarnarráð IUCN sjálfbæra nýtingu á öllum 19 stofnum hvítabjarna. Um 800 dýr eru felld árlega.

Árið 2009 var unnin skýrsla starfshóps sem umhverfisráðherra skipaði um tillögur að viðbrögðum við landgöngu hvítabjarna.