Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ný reglugerð um öryggi á sundstöðum tekur gildi um áramótin. Í reglugerðinni eru gerðar ítarlegri kröfur um öryggiskerfi og laugargæslu en gert var í eldri reglugerð. Þá eru auknar kröfur gerðar um öryggi barna og sérstakar kröfur gerðar til sundlaugavarða, kennara og þjálfara.

Í reglugerðinni segir meðal annars að við hönnun nýrra lauga og endurgerð eldri lauga skuli gera ráð fyrir nauðsynlegri lýsingu og öryggiskerfi svo sem myndavélum eða öðrum viðurkenndum búnaði sem tryggir öryggi undir vatnsyfirborði. Einnig er sundstöðum gert að hafa stöðuga laugargæslu meðan gestir eru í laug og verður laugarvörðum óheimilt að sinna öðrum störfum samhliða.

Börnum yngri en tíu ára verður óheimilt að fara í sund nema í fylgd með syndum einstaklingi sem er fimmtán ára eða eldri. Einnig verður gerð ríkari krafa til starfsfólks sundstaða. Þannig verður eigendum sundlauga gert skylt að sjá til þess að starfsfólk fái starfsþjálfun eigi sjaldnar en árlega, þar með talin þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp. Starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar og sundþjálfarar verða að hafa náð átján ára aldri og standast hæfnispróf til að fá að sinna sínum störfum. Barnahópar skulu vera sérstaklega auðkenndir til að auðvelda ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni og þá mega sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur ekki víkja frá laug fyrr en allir nemendur yngri en fimmtán ára eru farnir í búningsklefa.

Reglugerðin byggir á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og tekur gildi 1. janúar 2011. Hún gildir um alla sund- og baðstaði sem almenningur hefur aðgang að, baðstofur og setlaugar en nær ekki til sundlauga og setlauga sem eingöngu eru ætlaðar til einkanota.

Reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund og baðstöðum.

Frétt á vef umhverfisráðuneytisins.