Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að taka þátt í þjóðarátaki um rafbílavæðingu Íslands. Samningur var undirritaður milli Umhverfisstofnunar og EVEN sem felur í sér staðfestingu á því að stofnunin tekur þátt í uppbyggingu hleðslukerfis fyrir bíla. Slíkir orkupóstar eru ætlaðir til notkunar fyrir viðskiptavini, starfsmenn og til framtíðar fyrir eigin rafbíla Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun mun jafnframt skipta út bílum sem nýta jarðefnaeldsneyti yfir í rafbíla að því marki sem mögulegt er. Stofnunin vill þannig leggja sitt að mörkum til að auka nýtingu á vistvænum og innlendum orkugjafa fyrir bíla og hvetur önnur fyrirtæki og stofnanir til að taka þátt. Ein forsenda uppbyggingar græns hagkerfis á Íslandi er að við nýtum okkur vistvæna orkugjafa og telur Umhverfisstofnun mikilvægt að nýtt verði íslenskt hugvit og hönnun við uppbyggingu lausna og þannig stuðla að grænni nýsköpun. Um langtímaverkefni er að ræða sem ekki hefur í sér teljandi fjárútlát á komandi árum en setur skýra stefnu á grænar lausnir til eflingar sjálfbærrar þróunar á Íslandi.