Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ársskýrsla Umhverfisstofnunar er komin út á rafrænu formi. Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni er losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, útiræktun á erfðabreyttu byggi og frábær árangur Svansmerkisins.

Fjöldi stuttra greina eru í skýrslunni sem gefur gott yfirlit fyrir helstu verkefni stofnunarinnar á árinu. Farið er yfir fleiri verkefni stofnunarinnar en áður, ítarlegri upplýsingar eru um starfsemi stofnunarinnar og á víð og dreif má finna fróðleiksmola um umhverfismál. Umhverfisstofnun hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar á undanförnum árum og endurspeglar skýrslan afrakstur þeirrar vinnu.

Ársskýrsla Umhverfisstofnunar miðast út frá ársáætlun stofnunarinnar. Skýrslan í ár tekur mið af ársáætlun ársins 2009 og þeim verkefnum sem lagt var upp með í henni.

Ásamt því að taka saman verk síðasta árs er einnig litið til framtíðar í skýrslunni og má í því sambandi vitna til ávarps forstjóra Umhverfisstofnunar, Kristínar Lindu Árnadóttur:

„Aukinn hljómgrunnur er fyrir nýjum áherslum nú eftir efnahagshrunið, þar á meðal svokölluðu grænu hagkerfi. Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að breyta hagkerfinu. Við verðum að færa okkur í átt að grænu hagkerfi. Fjölga þarf grænum störfum og nýta betur auðlindir m.a. með endurnýtingu og endurnotkun úrgangs. Nauðsynlegt er að byggja á umhverfishagtölum um t.a.m. náttúruauðlindir. Skattastefnan þarf að vera græn með mengunarbóta- og nytjagreiðsluregluna að leiðarljósi.”

Skýrslan var unnin að öllu leyti af starfsfólki Umhverfisstofnunar að undanskilinni prentuninni sem prentsmiðjan Hjá Guðjón Ó., sem er Svansmerkt.