Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi til handa HB Granda h.f. til reksturs fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði þar sem framleitt verður fiskimjöl og lýsi úr fiski og fiskúrgangi. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hámarksafköst verksmiðjunnar séu miðuð við að framleitt verði úr 850 tonnum af hráefni á sólarhring.

HB Grandi er að reisa nýja verksmiðju á athafnasvæði sínu við suðurenda núverandi verksmiðju og er að nokkru leyti um að ræða ný mannvirki. Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar og úrskurðaði stofnunin að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Nýju fiskimjölsverksmiðjunni fylgja ýmsar endurbætur og breytingar á mengunarvörnum. Notaður verður rafskautaketill og stefnt er að því að notkun hans taki alveg yfir og engin olíubrennsla verði við framleiðsluna. Samkvæmt upplýsingum frá HB Granda hefur olíunotkun verksmiðjunnar undanfarin ár numið 2,5 til 3,0 milljónum lítra á ári. Þá má nefna að fyrirhugað er að eyðing lyktar fari fram í efnaturni að lokinni meðhöndlun í sjóturni. Þessi tækni felur í sér að notaður er klór til að sundra illa lyktandi efnasamböndum og kemur þessi aðferð í stað eftirbrennslu útstreymislofts sem áður hefur verið notuð í þessu skyni. Enn fremur verður vinnslukerfið allt lokað sem og löndun í flutningaskip og mun þá notkun einnota mjölpoka leggjast af. Við framkvæmdirnar eykst afkastageta verksmiðjunnar.

Við samningu starfsleyfistillögunnar hefur Umhverfisstofnun lagt áherslu á skýr ákvæði um ferskleika hráefnis sem tekið er til vinnslu í verksmiðjunni enda er ferskleiki hráefnis besta vörnin gegn lyktarmengun. Einnig eru ítarleg ákvæði um hreinsum útblásturslofts frá öllum tækjum og vinnsluferlum sem geta valdið ólykt og að haldið verði undirþrýstingi í vinnsluhúsnæði til að hindra dreifingu ólyktar. Ákvæði eru um að hæð skorsteins og útblásturshraði sé nægilegur til að ekki verði líkur á niðurdrætti á útblásturlofti. Umsókninni fylgdi greinargerð um mat á aðstæðum hvað þetta varðar. Loks er krafa um að framkvæmdaraðila beri að huga að veðurfari ef ráðstafanir til að halda ferskleika hafa ekki dugað til og vinna þarf hráefni með of hátt TVN-gildi en það er mælikvarði á reikula basa sem valda lyktarmengun af hráefni sem hefur misst ferskleika.

Ýmis ákvæði eru varðandi kröfur til frárennslis og losunarmörk fyrir fitu, svifefni og súrefnisþörf. Þá ber að nýta soðvatn. Sérstök úttekt skal fara fram á heildarlosun mengandi efna frá verksmiðjunni og skal ljúka henni á árinu 2013.

Tillögurnar ásamt umsóknargögnum munu liggja frammi á bæjarskrifstofu Vopnafjarðar á tímabilinu 7. janúar til 4. mars 2010. Gögnin eru einnig aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 4. mars 2010 og skulu þær sendar til Umhverfisstofnunar og vera skriflegar.

Umhverfisstofnun mun halda kynningarfund í Miklagarði, félagsheimili Vopnafjarðar 14. janúar 2009 kl. 17 þar sem tillagan verður kynnt og að því loknu gefst fundargestum kostur á að koma með athugasemdir og bera upp spurningar.