Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið þá ákvörðun að veita Alcan á Íslandi hf. starfsleyfi fyrir framleiðslu á allt að 460 þúsundum tonnum af áli á ári með skilyrðum sem fram koma í starfsleyfinu. Eldra starfsleyfi var fyrir framleiðslu á allt að 200 þúsund tonna ársframleiðslu.

Í núverandi deiliskipulagi fyrir athafnasvæði verksmiðjunnar er ekki gert ráð fyrir stækkun álversins. Hafnarfjarðarbær hefur auglýst tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir stækkun álversins í Straumsvík en ekki staðfest það endanlega. Umhverfisstofnun telur sig þrátt fyrir það hafa nægar upplýsingar um staðhætti á fyrirhuguðu athafnasvæði til að unnt sé að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrir Alcan á Íslandi hf.

Í aðalskipulagi fyrir Hafnarfjörð fyrir árin 1995 til 2015 er þynningarsvæði fyrir verksmiðjuna tilgreint. Sérstök athygli er vakin á því að þynningarsvæðið er óbreytt frá fyrra starfsleyfi þrátt fyrir fyrirhugaða framleiðsluaukningu.

Starfsleyfið á pdf

Fréttatilkynning 8. nóvember 2005
Umhverfisstofnun