Stök frétt

Mikil aukning hefur orðið á íblönduðum matvælum á íslenskum markaði að undanförnu þ.e. matvælum sem búið er að bæta í aukalega vítamínum og steinefnum. Allir vita að vítamín og steinefni eru nauðsynleg til að viðhalda góðri heilsu. Fyrir flest vítamín og steinefni eru til ráðleggingar um hvað sé æskilegt að fá mikið af þeim á hverjum degi (kallast ráðlagður dagskammtur, RDS). En það er ekki nægjanlegt að vita að þessi efni eru okkur nauðsynleg, heldur er mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að máltækið “allt er gott í hófi” á virkilega við þegar kemur að neyslu vítamína og steinefna.

Áður fyrr gat það reynst neytendum erfitt að fullnægja bætiefnaþörf sinni, en nú hefur dæmið snúist við. Nú á dögum er orðin raunveruleg hætta á að neytendur fái of mikið af vítamínum og steinefnum. Á þetta sérstaklega við um einstaklinga sem neyta mikils af vítamín- og steinefnabættum matvælum samhliða inntöku fæðubótarefna. Viðkvæmasti hópurinn gagnvart ofneyslu vítamína og steinefna eru börn. Foreldrum og yfirvöldum ber að vernda þennan hóp sérstaklega. Komið hefur í ljós, m.a í Bretlandi að stórum hluta íblandaðra matvæla er beint sérstaklega að börnum og unglingum og er það mikið áhyggjuefni.

Engin reglugerð er til á Íslandi um íblöndun bætiefna í matvæli. Lengi hefur verið beðið eftir reglugerð frá Evrópusambandinu sem vonandi verður að veruleika á næsta ári. Fram að því er unnið eftir bráðabirgðarákvæði í reglugerð um aukefni þar sem segir að sækja þurfi um leyfi fyrir íblöndun bætiefna í matvæli til Umhverfisstofnunar.

Þann 5. september s.l. ákvarðaði sérstök úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir að Umhverfisstofnun skorti lagastoð til að krefjast varúðarmerkinga á matvæli til að beina viðkvæmum hópi einstaklinga frá neyslu tiltekinnar vítamínbættrar vöru, en þetta var sú aðferð sem Umhverfisstofnun vildi nota til að vernda viðkvæma þjóðfélagshópa fyrir ofneyslu bætiefna.

Þó að skorti lagastoð til verndar neytendum er mikilvægt að átta sig á því að hér getur raunveruleg hætta verið á ferð. Þó svo að vítamín séu vatnsleysanleg þá geta þau samt reynst skaðleg ef þeirra er neytt í miklu magni.

 

Ekki er óhætt að neyta allra B-vítamína í ótakmörkuðu magni eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum síðustu daga. Meðal þeirra B-vítamína sem ber að varast að neyta í of miklu magni er B6-vítamín og fólasín.Vísindanefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu hefur sett efri mörk fyrir þessi tvö vítamín en þessi efri mörk eru ákveðinn þröskuldur fyrir neyslu á þeim (mun hærri en ráðlagður dagskammtur) og sé farið yfir þessi mörk er hætta á óæskilegum áhrifum á heilsu manna. Fyrir fullorðna eru efri mörk fyrir fólasín 1000 μg á dag og efri mörk fyrir B6-vítamín eru 25 mg á dag.

Helsta þekkta neikvæða afleiðing þess að fá of mikið af fólasíni (efri mörk fyrir 1-3 ára gömul börn er 200 μg/dag) er sú að neysla á vítamíninu getur falið einkenni B12-vítamínsskorts. Afleiðingin af skorti á B12-vítamíni leiðir til blóðleysis og stækkunar á rauðum blóðkornum (megaloblastisk anemi) auk einkenna frá taugum sem eru til komin vegna rýrnunar á mænu, heila, sjóntaugum og taugum í útlimum. Í flestum tilvikum skiptir engu fyrir einstaklinga með B12-vítamínskort þó þetta vítamín komi með fæðunni, þar sem helsta ástæða fyrir skortinum er sjúkdómur sem veldur lélegri upptöku á vítamíninu úr fæðunni.

Hvað varðar B6-vítamín er það eitt þeirra vítamína sem eiturefnafræðingar hafa miklar áhyggjur af, því ef þessa vítamíns er neytt í miklu magni (efri mörk fyrir börn 1-3 ára eru 5 mg/dag) getur það valdið taugaskemmdum.

   

Þó svo að umræðan hér hafi að mestu snúist um vatnsleysanleg B-vítamín gildir það einnig fyrir önnur bætiefni að varast skal að fá of mikið af vítamínum og steinefnum. Eins er hætta á að jafnvægi raskist milli næringarefna við íblöndun en rétt jafnvægi vítamína og steinefna er einmitt til staðar í venjulegu og fjölbreyttu mataræði.

Umhverfisstofnun beinir því til neytenda að skoða vel og vandlega hvort matvæli sem þeir neyta innihaldi viðbætt vítamín og steinefni svo þeir fái yfirsýn yfir það magn sem þeir innbyrða daglega með fæðunni. Einnig skal bæta við því magni næringarefna sem fæst frá fæðubótarefnum, sé þeirra einnig neytt. Til að sjá hvort matvæli séu íblönduð þarf að skoða innihaldslýsingu, en þar er vítamína og /eða steinefnin getið ef þeim er bætt í tiltekna vöru.

Varast skal að neyta næringarefna í miklu magni umfram ráðlagða dagskammta, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.