Stök frétt

Norræn matvælaeftirlitsráðstefna verður haldin dagana 23. og 24. janúar 2006 í Helsingør í Danmörku. Danska matvælastofnunin (Fødevarestyrelsen) sér um framkvæmd ráðstefnunnar, með aðstoð fulltrúa frá systurstofnunum sínum á hverju Norðurlandanna.

Markhópur ráðstefnunnar eru starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem sinna matvælaeftirliti með einum eða öðrum hætti. Starfsmönnum skoðunarstofa og Aðfangaeftiriltsins er einnig boðið að sækja ráðstefnuna.

Ráðstefnan er fjórða norræna matvælaeftirlitsráðstefnan. Fyrri ráðstefnur fóru fram í Reykjavík 2005, Stokkhólmi 2004 og Osló 2003. Fjöldi ráðstefnugesta hefur alltaf verið um eða yfir 150 manns og hefur góður rómur verið gerður af ráðstefnunni.

Norræna ráðherranefndin fjármagnar framkvæmd ráðstefnunnar, enda er henni meðal annars ætlað að efla umræðu um matvælaeftirlit og styrkja tengsl þeirra sem sinna matvælaeftirliti á Norðurlöndunum. Ekkert ráðstefnugjald er vegna þátttöku á ráðstefnunni, en ráðstefnugestir þurfa þó að standa sjálfir straum af ferða- og gistikostnaði.

Ráðstefnan fer fram á "skandinavísku" og er bæði á formi fyrirlestra og hópavinnu. Dagskráin liggur ekki enn fyrir, en gæðastjórnun í eftirliti, rekjanleiki, innköllun af markaði, eftirlitsáætlanir og hæfni eftirlitsaðila verða væntanlega tekin til umfjöllunar.

Þeir sem hafa áhuga á að sækja ráðstefnuna eru hvattir til að taka dagana 23. og 24. janúar 2006 frá á dagatalinu sínu og fylgjast með heimsíðu Umhverfistofnunar, www.ust.is, undir málaflokknum "matvæli". Innan skamms koma upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar og hvernig skráning fer fram.