Stök frétt

Hvað er sólanín?

Sólanín er samheiti yfir efnin alfa-sólanín og alfa-chaconin sem eru glýkóalkalóíðar. Með alkalóíðum er átt við lífræn efni sem hafa þrígilt köfnunarefni. Glýkóalkalóíðar eru náttúruleg eiturefni sem geta myndast í kartöflum og gegna hlutverki varnarefna, þ.e. geta varið kartöfluna fyrir ákveðnum sjúkdómum og aukið þannig mótstöðu hennar.

Hvernig myndast sólanín í kartöflum?

Sólanín eru til staðar í öllum hlutum kartöfluplöntunnar og er magn þess mest í blómum, spírum og blöðum. Í kartöfluhnýðinu eru efnin aðallega við og í hýði kartöflunnar. Það er vel þekkt að mikill munur er á milli afbrigða hvað varðar styrk þessara efna, en aðstæður á vaxtartíma hafa einnig mikið að segja og því getur verið mikill munur á sama afbrigði milli ára. Þótt grænkun á kartöflum (myndun blaðgrænu) og aukning á sólaníninnihaldi séu aðskildir efnaferlar eru þeir oft tengdir einkum þegar kartöflur verða grænar í sólarljósi. Mikið hnjask og sólarljós stuðlar að myndun efnisins. Rannsóknir á kartöfluafbrigðum sem ræktuð eru hér á landi hafa sýnt fram á að þau innihalda almennt sólanín undir þeim hámarksgildum sem gefin eru upp í reglugerð um aðskotaefni í matvælum. Hámarksgildi fyrir sólanín í kartöflum er 200 mg/kg.

Eitrun

Þegar talað er um eitrun þá er magn sólaníns sem menn neyta töluvert yfir hámarksgildum. Eituráhrif á fólk er í flestum tilfellum vegna tveggja efna þ.e. a-solanin og a-chaconin. Hefðbundin einkenni sólanín eitrunar í fólki eru bæði meltingartruflanir og áhrif á taugakerfið. Meltingartruflanir hafa verið uppköst, niðurgangur og slæmir kviðverkir. Áhrif á taugakerfið hafa verið dofi, sinnuleysi, uppnám, þróttleysi og depurð og stundum meðvitundarleysi. Venjulega koma einkennin fram 8-12 klukkustundum eftir neyslu. Einnig getur hækkandi líkamshiti, hraður veikur púls, lágur blóðþrýstingur og hröð öndun fylgt eitrun. Til eru dæmi um um að fólk hafi látist af völdum sólaníns en það hefur gerst við mjög óvenjulegar aðstæður, þ.e. kartöflurnar hafa verið ónýtar og fólk borðað verulegt magn af þeim.

Ráðleggingar

  • Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu.
  • Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær stoppa hjá þeim.
  • Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum.
  • Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum stað heima fyrir.
  • Varist að borða skemmdar og/eða grænar kartöflur.