Stök frétt

Mynd: Ólafur K. Nielsen

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um fyrirkomulag rjúpnaveiða haustið 2005. Reglugerðin er í samræmi við tillögur Umhverfisstofnunar nema að veiðitími er samfelldur. Reglugerðin felur í sér sölubann á veiðibráð og verulega styttingu veiðitímabilsins frá því sem var áður en rjúpan var friðuð fyrir tveimur árum. Veiðitímabilið verður nú frá 15. október til 30. nóvember, en áður voru veiðar leyfðar til 22. desember. Með þessum aðgerðum er að því stefnt að rjúpnaveiði í haust verði ekki meiri en um 70.000 fuglar eins og ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins gerir ráð fyrir. Til stuðnings þessum aðgerðum verður ráðist í sérstakt hvatningarátak til veiðimanna um hóflegar veiðar. Þá er gert ráð fyrir að stórt svæði á Suðvesturlandi verði áfram friðað. Í reglugerðinni er jafnframt ítrekað bann við notkun vélsleða, fjórhjóla og annarra torfærutækja við rjúpnaveiðar.

Síðast liðinn vetur var samþykkt á Alþingi frumvarp umhverfisráðherra sem felur í sér heimild til að setja á sölubann og hefur ráðherra því fengið í hendur mikilvægt stjórntæki til að draga úr rjúpnaveiði, en magnveiðimenn sem selt hafa feng sinn hafa hingað til átt stóran hlut í rjúpnaveiðinni.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ákveðið var að friða rjúpuna hefur stærð rjúpnastofnsins rúmlega þrefaldast og veiðiþol hans því aukist verulega. Til að gæta fyllstu varúðar hefur umhverfisráðherra auk sölubanns ákveðið að veiðitímabilið verði stytt úr tæpum 10 vikum eins og það var áður en gripið var til friðunar í tæpar 7 vikur. Eins og áður segir hefur ráðherra einnig ákveðið að standa fyrir sérstöku átaki til að hvetja veiðimenn til að veiða af hófsemi og veiða ekki meira en þeir þurfa fyrir sig og sína. Fylgi veiðimenn þessum tilmælum, og dugi reglurnar að öðru leyti til að draga nægilega úr veiðinni, ætti stofninn að verða sjálfbær og geta sveiflast með náttúrulegum hætti. Gangi þetta hins vegar ekki eftir og veiðarnar verði meiri en stefnt er að og ætla megi að þær hafi gengið of nærri stofninum, mun ráðuneytið verða að grípa til hertra aðgerða á næsta ári. Vonir standa þó til að aðgerðirnar nægi og að veiðimenn taki vel í tilmæli um hófstilltar sjálfbærar veiðar.

Ráðuneytið væntir þess að gott samstarf takist með veiðimönnum, landeigendum og öðrum veiðirétthöfum um rjúpnaveiðina á þessu hausti.

Fréttatilkynning nr. 26/2005
Umhverfisráðuneytið