Stök frétt

Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu í dag, 22. ágúst, 2005, þar sem haft er eftir Úlfari Eysteinssyni að besti tími til kræklingatínslu sé upprunninn, vill Umhverfisstofnun koma því á framfæri að magn eitraðra þörunga í Hvalfirði og á nokkrum öðrum stöðum við landið er yfir hættumörkum.

Á undanförnum árum hefur komið fram í rannsóknum Hafrannsóknastofnunar að magn eitraðra svifþörunga getur verið yfir hættumörkum frá maí og fram í októbermánuð. Ef magn eitraðra svifþörunga er yfir viðmiðunarmökum er veruleg hætta á að kræklingur og annar skelfiskur sé óhæfur til neyslu. Heppilegasti tíminn til skelfisktínslu er því á veturna og vorin.

Hafrannsóknarstofnun hefur í sumar í samvinnu við Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Umhverfisstofnun vaktað magn svifþörunga á nokkrum stöðum við landið en þeir eru: Breiðafjörður, Eyjafjörður, Mjóifjörður eystri og Hvalfjörður www.hafro.is/voktun . Umhverfisstofnun hefur staðið að sýnatöku í Hvalfirði sem er vinsæll kræklingatínslustaður meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Undanfarnar fjórar vikur hefur magn eiturþörunga verið yfir viðmiðunarmörkum og síðastliðna viku var magn þeirra hátt yfir viðmiðunarmörkum fyrir tegundir sem geta valdið skelfiskeitrun, en hún getur valdið heiftalegri magakveisu. Stofnunin beinir því til fólks sem hyggur að kræklingatínslu að fylgjast með heimasíðu Umhverfisstofnunar www.ust.is en á henni eru nýjustu upplýsingar um niðurstöður talninga á eiturþörungum í Hvalfirði.

Niðurstöður síðustu talninga leiddu eftirfarandi í ljós:

Vika 33 (15-21.ágúst):

Skoðun á háfsýni sýndi að kísilþörungasamfélag er enn ríkjandi og skoruþörungar eru einnig til staðar. Í sýninu fundust Dinophysis (DSP) tegundir (D. acuminata, D. norvegica) og því var sett upp sýni fyrir talningu.

Niðurstöður talninga sýna að fjöldi Dinophysis tegunda (D. acuminata, D. norvegica) var 1560 fr/l sem er langt yfir viðmiðunarmörkum. Auk þess fannst Alexandrium tamaraense (20 fr/l) í sýninu (PSP).

Neysla skelfisks í Hvalfirði getur því verið varhugaverð í ljósi þessara niðurstaðna.