Rauðhólar

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, Reykjavíkurborgar og hagsmunaaðila vinna nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Rauðhóla en Rauðhólar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 1974.

Rauðhólar eru þyrping gervigíga í Elliðaárhrauni í norðanverðum hluta Heiðmerkur en hólarnir eru taldir hafa myndast fyrir um 4.600 árum þegar Elliðaárhraun rann.  Rauðhólar eru vinsælt útivistarsvæði sem staðsett er rétt austan við Norðlingaholt í Reykjavík. Fólkvangurinn hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir göngu- og reiðferðir. Á svæðinu eru jarðminjar sem eru sjaldséðar á heimsvísu auk þess sem svæðið býr yfir ríkulegum menningarminjum sem gera fólkvanginn að einstökum áningastað.

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til næstu ára ásamt aðgerðum til að viðhalda verndargildi svæðisins.
 Hér að neðan er að finna verk- og tímaáætlun og samráðsáætlun vegna verkefnisins. Lög er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.

Frekari upplýsingar veita Þórdís Björt Sigþórsdóttir thordis.sigthorsdottir@umhverfisstofnun.is og René Biasone, rene.biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.