Snæfellsjökull

Snæfellsjökull er 1446 m hár og hefur oft verið kallaður konungur íslenskra fjalla. Hann var lengi talinn hæsta fjall landsins. Eftir því sem best er vitað klifu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson tindinn fyrstir manna, árið 1754 frá Ingjaldshóli. 

Fjallið er virk eldkeila sem hefur hlaðist upp í mörgum hraun- og sprengigosum á síðustu 800 þúsund árum. Toppgígurinn er um 200 metra djúpur, fullur af ís og girtur íshömrum. Hæstu hlutar hans eru þrjár þúfur á barmi gígskálarinnar, kallaðar Jökulþúfur og er Miðþúfan þeirra hæst. Jökullinn hefur minnkað á undanförnum árum og er nú um 10 km2 að flatarmáli. Hlíðar jökulsins eru einkar fallegar og víða fléttast hraunið í reipum niður hlíðarnar. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1800 árum og var það stórgos. Þá barst ljós aska yfir norðanvert Snæfellsnes og Vestfirði. Hraun rann niður suðurhlíðar fjallsins og er t.d. Háahraun úr því gosi. Snæfellsjökull er talinn vera virk eldstöð.

Sagt er frá því í Bárðar sögu Snæfellsáss að Bárður hafi gefist upp á samneyti við fólk og að lokum gengið í jökulinn. Upp frá því er Bárður af sumum talinn verndari svæðisins. Jökullinn hefur orðið bæði innlendum og erlendum skáldum og listamönnum að yrkisefni og veitt öðrum innblástur í gegnum tíðina. Sumir finna sterk áhrif frá jöklinum og telja að hann sé ein af sjö stærstu orkustöðvum jarðar.

Þeim sem hyggja á ferðir á Snæfellsjökul er bent á að kynna sér vel aðstæður og ástand jökulsins. Tilmælum er beint til ökumanna snjósleða og jeppa að leitast við að trufla ekki umferð gangandi fólks á jöklinum.