Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Um svæðið

Norður úr Breiðafirði ganga margir firðir og er Vatnsfjörður vestastur þeirra. Að honum liggja Barðaströnd að vestan, Hjarðarnes að austan og Glámuhálendið að norðan. Barðaströnd er fremur þéttbýl en sveitirnar norðan og austan Vatnsfjarðar eru að mestu komnar í eyði.  Friðlandið er í landi höfuðbólsins Brjánslækjar og eyðijarða sem liggja undir því. Mörk friðlandsins eru við Þverá að vestan, síðan er í grófum dráttum fylgt vatnaskilum um Hornatær og Dynjandisheiði norður í Glámu. Þaðan suður á Þingmannaheiði og suðvestur í Hörgsnes sem markar fjarðarmynnið að austan.

Sumarfagurt og veðursælt er í Vatnsfirði og þaðan er tilvalið að skoða Vestfirði. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka að Látrabjargi, Selárdal og á Ísafjörð. Um klukkustund á Rauðasand og hálftíma að Dynjanda. Einnar stundar sigling er með Baldri í Flatey.

  • Gangið vel um svæðið og náttúru þess
  • Sýnið fuglum tillitssemi á varptíma
  • Hafið gæludýr í bandi
  • Skiljið ekkert eftir og takið allt sorp með ykkur af svæðinu
  • Næturgisting er óheimil utan skipulagðra tjaldsvæða
  • Allt jarðrask og mannvirkjagerð er háð leyfi Umhverfisstofnunar
  • Umferð um eyjar og hólma er háð leyfi
  • Akstur utan vega og ómerktra slóða er óheimill
  • Ekki má skerða gróður, trufla dýralíf og skemma jarðmyndanir eða aðrar minjar
  • Berjatínsla, önnur en til neyslu á staðnum, svo og veiði á fugli og fiski er óheimil án leyfis
  • Öll meðferð skotvopna er bönnuð innan friðlandsins