Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gíslahellir

Sunnanverðir Vestfirðir eru hluti af sögusviði Gísla sögu Súrssonar. Gíslahellir á Hörgsnesi dregur nafn sitt af fornum munnmælum um að þar hafi Gísli Súrsson hafist við á flótta sínum undan Berki digra og mönnum hans. Um er að ræða berghelli í jörðu sem er inngengur um hálfgerða holu svo sá sem ætlar í hellinn þarf að renna sér þangað niður með fæturna á undan. Veggir hellisins og þak eru úr bergi en á gólfinu smágerð möl. Hann er hér um bil kringlóttur og er um fjórir m að þvermáli, hæstur í miðju en þak lækkar út til veggja. Í miðju er hann um 2,5 m að hæð. Mjög dimmt er í hellinum en þó leggur glætu inn um munnann. Fyrrum mun það hafa komið fyrir að tófa grenjaði sig í hellinum. Í leysingum og vætutíð getur holan orðið mjög óvistleg og rök enda skýlir birki ekki lengur munnanum eins og mun hafa gert fyrr. Hellirinn var svo vel falinn í birkiskógi að nær ómögulegt var að rata á hann nema viðkomandi vissi nákvæmlega hvar hann var að finna.

Talið er að Gíslasaga hafi verið fest á handrit á 13. öld og árið 1981 var kvikmyndin “Útlaginn” í leikstjórn Ágústar Guðmundssonar gerð upp úr sögunni.

Hver var Gísli Súrsson?

Gísli var fæddur í Noregi. Hann flutti þaðan um 950 ásamt fjölskyldu sinni eftir illdeilur. Faðir hans hét Þorbjörn en var kallaður Súr vegna þess að hann hafði eitt sinn bjargað sér úr eldi með því að fara í mjólkursýru í keri. Þegar Þorbjörn Súr kom til Íslands settist fjölskyldan að í Dýrafirði. Seinna bjó Gísli á Hóli og eignaðist konu sem hét Auður Vésteinsdóttir. Þau áttu engin börn en eina fósturdóttur sem hét Guðríður.

Gísli gekk í fóstbræðralag með bróður sínum Þorkatli og tveim mágum. Í fóstbræðralagi fólst það að óskyldir menn tengdust eins og um fjölskyldumeðlimi væri að ræða og þar var hefndarskyldan mikilvægust en hún var áberandi í fjölskylduheiðri norrænna manna á þessum tíma. Þetta fóstbræðralag fór út um þúfur þar sem þessir tveir mágar Gísla voru ósáttir og endar á því að annar þeirra, Vésteinn bróðir Auðar konu hans, var veginn.  Gísli grunaði hinn, Þorgrím, sem var giftur Þórdísi systur hans, og drepur hann. Þá vilja ættmenni Þorgríms hefna fyrir morðið á honum og fá Gísla dæmdan sekan á vorþingi Vestfirðinga. Börkur, sem var kallaður digri, bróðir Þorgríms var þar fremstur í flokki en hann giftist ekkju Þorgríms sem var systir Gísla. Hann leitaði liðsinnis hjá Eyjólfi nokkrum sem kallaður var grái og bauð honum 300 silfurpeninga fyrir að drepa Gísla.

Gísli seldi landið sitt í Dýrafirði og flutti í Geirþjófsfjörð í Arnarfirði ásamt Auði, konu sinni. Næstu árin faldi Gísli sig til skiptis heima í Geirþjófsfirði og á nokkrum öðrum stöðum á Barðaströnd og í Hergilsey í Breiðafirði en 13 árum eftir dóminn sem hann fékk fundu liðsmenn Eyjólf Gráa hann í Geirþjófsfirði. Gísli varðist vel en þeir voru fimmtán saman og segir sagan að hann hafi hlaupið upp á Einhamar, svokallaðan, og náð að særa 8 af mönnum Eyjólfs til ólífis áður en hann féll sjálfur.

Gísli var lengur í sekt en nokkur annar maður á Íslandi, að frátöldum Gretti Ásmundarsyni.  Eftir dauða Gísla reyndi Þórdís kona Barkar (systir Gísla)  að drepa Eyjólf en það misheppnaðist. Börkur maður hennar bauð Eyjólfi þá skaðabætur og þá skildi Þórdís við Börk. Auður kona Gísla fór til Danmerkur ásam konu Vésteins, Gunnhildi og gerðist kristin. Hún fór í pílagrímsferð til Rómar og kom aldrei aftur til Íslands. Ekki er vitað um ævilok þeirra.

Nánar um fóstbræðralag: 

Fóstbróðir er sá sem hefur gengið í fóstbræðralag með öðrum manni. Þegar menn gengu í fóstbræðralag sóru þeir að hefna hvors annars ef hinn yrði drepinn og því fylgdi sérstök athöfn. Hún gekk þannig fyrir sig að menn ristu „jarðmen“ sem þeir gengu undir og blönduðu blóði sínu. Fóstbræðralög koma mjög við sögu í Íslendingasögum, og eftir þeim að dæma þótti mikil skömm að því að efna ekki heit sitt um hefnd fyrir fóstbróður. Í forníslenskum heimildum er ítarlegustu lýsinguna á því hvernig menn sórust í fóstbræðralag að finna í 6. kafla Gísla sögu Súrssonar:

„Ganga [þeir] nú út í Eyrarhvolsodda og rista þar upp úr jörðu jarðarmen svo að báðir endar voru fastir í jörðu og settu þar undir málaspjót, það er maður mátti taka hendi sinni til geirnagla. Þeir skyldu þar fjórir undir ganga, Þorgrímur, Gísli, Þorkell og Vésteinn. Og nú vekja þeir sér blóð og láta renna saman dreyra sinn í þeirri moldu er upp var skorin undan jarðarmeninu og hræra saman allt moldina og blóðið; en síðan féllu þeir allir á kné og sverja þann eið að hver skal annars hefna sem bróður síns og nefna öll goðin í vitni.“

Gísla Saga og tungumálið

Sagan um Gísla varðveittist í munnlegri geymd þangað til hún var rituð á handrit, sennilega á 13. öld. Árið 1981 var gerð íslensk kvikmynd um atburðina sem fyrr segir, „Útlaginn“.

Í sögunni koma fyrir nokkrir fornir málshættir og orðtök sem hafa varðveist í málinu. "Æ sér gjöf til gjalda" er látinn Gísla í munn skömmu áður en hann vegur Þorgrím Þorsteinsson. Þetta þýðir að sá sem gefur á von á því að fá eitthvað í staðinn, þ.e. að tilhlýðilegt þyki að launa fyrir gjafir eða viðvik. "Allt kann sá er hófið kann" sem lagður í munn Þorkels þegar Þorgrímur minnist á refla sem Vésteinn vildi gefa fyrrnefnda en hann ekki þiggja.

Aðrar frægar tilvitnanir í Gísla sögu eru m.a.:

„Oft stendur illt af kvennahjali“

„Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“

„Eru oft köld kvennaráð“

„Skaltu muna það vesall maður meðan þú lifir að kona hefur barið þig“